Wednesday, May 19, 2004

Næturstaður

Hvítt húsið stendur autt í frosnum skóginum. Yfirgefin húsgögnin hvíla í draumlausum svefni og tómir skápar standa geispandi þar sem þeir voru skildir eftir. Kalt bergmál fer um tóma gangana og óteljandi herbergin sem lykta af horfnum augnablikum og minningum sem dofnuðu og gleymdust einhversstaðar í fjarska. Gluggarnir horfa út í gráleita skógarflækjuna og veiða föla birtu sem kastast eirðarlaus á milli fábreytilegra veggjanna án þess að mæta neinum á þögulum göngunum. En hún hættir sér ekki niður mjóan stigann í eldhúsinu því hann liggur ofan í dimman kjallarann þar sem þvalir múrsteinsveggir umlykja óslétt moldargólfið.

Vindurinn líður sporlaust gegnum skóginn og nálgast húsið og í einu herbergjanna vaknar sárt, skerandi kvein. Upp úr kjallaranum liggja fúnar viðartröppur sem enda inn á eldhúsgólfinu sem er lagt með tígullaga flísum sem springa hver af annarri þegar húsið hniprar sig saman í vetrarfrostinu. Til að komast úr eldhúsinu og fram á gang þarf maður að fara yfir þröskuldinn undir eldhúshurðinni en hann er svo hár að maður getur dottið um hann ef maður hleypur. Og ef maður hleypur nógu hratt eftir viðarfjölunum á ganginum er hægt að fá flísar í tásurnar en það er ekki hægt í stiganum sem liggur upp á efri hæðina því hann er klæddur með teppi. Stóri tréhnúðurinn sem einu sinni var efst í stigahandriðinu er týndur en mjór dregill liggur inn eftir öllum ganginum á efri hæðinni að hurðinni með læsingunni sem skemmdist. Herbergið hefur lifnað við undan sáru kveininu sem berst úr falsinum í kringum gluggann. Það ekki er hægt loka honum almennilega því lamirnar skemmdust einu sinni þegar reynt var að opna hann of mikið og smjúga út um rifuna og út á þakið fyrir neðan. Vindurinn kveinar í falsinum og sárt kveinið berst út um dyrnar sem ekki er hægt að læsa, eftir dreglinum sem liggur út ganginn að stiganum, framhjá týnda hnúðnum, niður mjúkt teppið í stiganum, eftir viðarfjölunum sem brenna á manni hnén, yfir þröskuldinn inn í eldhús sem er ekki nógu stór til að hægt sé að halda sér í hann þegar maður er dreginn yfir á tígullaga flísarnar á eldhúsgólfinu. En kveinið heyrist ekki niðri í dimmum kjallaranum þar sem þvalir múrsteinsveggirnir umlykja óslétt moldfargólfið.

Í þíðunni fer húsið að teygja úr sér og kæfðir dynkir berast niður í kjallarann þegar tígullaga flísarnar halda áfram að springa upp úr eldhúsgólfinu. Droparnir sem falla úr loftinu mynda misstóra polla á víð og dreif um húsið og hver þeirra slær sína nótu í tilhlökkunarfullu laginu sem húsið leikur á vorin. Og áður en langt um líður eru holir veggirnir farnir að iða af lífi.

Ferðalangurinn slítur sig lausan úr grænu laufþykkninu, strýkur svitann af enninu og virðir undrandi fyrir sér þennan hvíta fyrirburð inni í miðjum skóginum. Í kringum húsið er hátt gras og upp úr óræktinni í garðinum rísa tignarlegar eikur óskyldar kræklóttum hríslunum sem flækjast hver um aðra þvera í skógarþykkninu í kring. Allan hringinn umhverfis húsið er eins og skógurinn hafi hrökklast skömmustulegur undan augnaráði dökkra glugganna í húsinu. Ferðalangurinn gengur upp að veröndinni og þegar hann stekkur upp á pallinn heyrist dynkur í viðnum og brestir fara um húsið eins og tréverkið hafi hrokkið við.

Umgangurinn á veröndinni heyrist inni í húsið og kannski er einhver að koma í heimsókn. Það er tekið í hurðarhúninn og lagst á hurðina þar til karmjárnið brotnar út úr fúnum dyrakarminum og bresturinn heyrist alla leið inn í dagstofuna. Það er styttra að hlaupa upp í herbergi úr dagstofunni heldur en innan úr eldhúsi. Það er heldur enginn þröskuldur sem maður getur dottið um, en maður verður samt að passa sig að hlaupa ekki of hratt á ganginum svo að maður fái ekki flísar í tásurnar. Stiginn er sem betur fer með mjúku teppi sem nær alla leið þangað sem hnúðinn vantar á handriðið. Það er mjór dregill á ganginum uppi sem liggur að herbergishurðinni en það er ekki lengur hægt að læsa henni. Inni í herberginu er ekkert nema gluggi en það er ekki hægt að fara út um hann til að komast út á þakið fyrir neðan.

Ferðalangurinn tekur af sér bakpokann og skilur við hann í forstofunni. Það var skrítið að koma fyrir hornið fram á ganginn og horfa um húsið og sjá alla þessa hluti sem voru inni húsinu og enginn hafði horft á svo lengi. Það var eins og þeim hefði verið komið að óvörum og það tæki þá augnablik að stilla sér upp. Ferðalangurinn gengur eftir viðarfjölunum á ganginum og hlustar á húsið bregðast við fótataki sínu þar til hann staðnæmist í dyrunum inn í dagstofuna. Rykið svífur um í mollunni og ljómar upp í sólargeislunum sem brjótast inn á milli þungra gluggatjaldanna og nú fyrst finnur hann hve loftið inni í fúnu húsinu er gamalt og þungt. Það var samt eitthvað skrítið við að vera bara allt í einu staddur inni í dimmri dagstofu því fyrir stundarkorni hafði hann eiginlega verið orðinn villtur í sólbjörtum skóginum. Hann lætur fallast í rykugan armstól með vínrauðu áklæði og horfir upp um veggina þar sem skuggarnir af horfnum málverkum hanga enn í upplituðu veggfóðrinu og á yfirgefna hlutina sem enn eru þar sem einhver sleppti af þeim hendinni. Skyndilega er lífið í húsinu farið að geisla af þessari gömlu dagstofu og hann hrekkur við þegar honum finnst hann finna bökunarlykt laumast innanum fúann í loftinu. Alveg rétt. Það er sunnudagur. Það hafði ekki verið í skóginum en núna fann hann rólegt sunnudagsíðdegið þar sem það leið í loftinu innan um rykið í brúnum geislunum sem stafaði inn á milli gluggatjaldanna. Ferðalangurinn hugsar með sér að hann þurfi ekki að tjalda og um leið sígur yfir hann höfgi og þegar hann leyfir augnlokunum að falla aftur, heyrir hann hvernig óteljandi laufblöðin í trjánum fyrir utan blakta í léttri golunni og áður en hann veit af er hann sokkinn í djúpan svefn og bráðum er enn eitt bjart sumarkvöldið farið að dotta inni í dagstofunni og ferðalangurinn steinsefur einhversstaðar inni í ókunnu húsi sem falið er djúpt inni í skóginum.

Eftir ganginum á efri hæðinni liggur mjór dregill að stiganum. Teppið í stiganum er svo mjúkt að það heyrist ekki þegar maður læðist niður. Það heyrist heldur ekki neitt í viðarfjölunum á ganginum niðri ef maður læðist inn í setustofuna þar sem ókunnugur maður sefur í húsbóndastólnum. Það er ábyggilega hægt að fá hann til að koma með niður að vatni áður en það kólnar meira.

Um morguninn vakar ferðalangurinn upp frá undarlegum draumi sem hann ekki skilur. Hann hefur sofið í öllum fötunum sem eru orðin gegndrepa af köldum svita og meira að segja skórnir eru blautir. Þar er eins og hann hafi misst af einhverju með því að hafa sofið svona lengi og hann drífur sig fram í forstofuna þar sem bakpokinn hans stendur ekki lengur upp við vegginn heldur hefur runnið til og liggur á gólfinu. Ferðalangurinn opnar hurðina og stígur út á veröndina eins og hann hafi gert það á hverjum morgni og virðir fyrir sér rákina í hávöxnu grasinu sem liggur að staðnum þar sem hann kom út úr skógarþykkninu. En á öðrum stað, til hliðar við húsið, opnast einhver stígur sem liggur niður á við eitthvert inn í skóginn og upp úr stígnum kemur einhver slóð sem liggur að tröppunum upp á veröndina og inn um opnar dyrnar fyrir aftan hann. Ferðalangurinn þrífur bakpokann sinn í flýti, veður út í hátt grasið sem flækist um þunga skóna og læðist skömmustulegur í burtu frá húsinu lítandi við í njósn um mannlausa forstofuna og hreyfingarlaus gluggatjöldin.

Skyndilega er húsið aftur orðið þögult. Frá herberginu sem ekki er hægt að læsa liggur mjór dregill að óhreinum hnúðnum sem hreykir sér efst í stigahandriðinu. Það er hægt að taka hnúðinn af og hann skemmist ekkert þó að maður láti hann rúlla niður stigann því að það er teppi í stiganum. Svo er líka hægt að fara með hann út og sparka honum á undan sér niður að vatni þar sem hægt er að láta hann sigla á vatninu. En maður verður líka að passa hann vel.

Hvítt húsið stendur autt í grænum skóginum. Tignarlegar eikur rísa upp úr garðinum í kring og þungar laufkrónurnar hrærast um í hlýrri sumardagsgolunni og varpa fjörugum smáskuggum inn um gluggana og inn í herbergin þar sem þeir leika sér í algleymi um gólfin án þess að mæta neinum á þögulum göngunum eða í herbergjunum sem lykta af horfnum augnablikum og minningum sem dofnuðu og gleymdust einhversstaðar í fjarska.