Monday, May 10, 2004

Móðan

Aðeins ég hafði fundið hvernig það nálgaðist. Hvítt þokuloft sem seildist niður úr skarðinu og stefndi á móti okkur. Póstklárinn mjakaðist í rólegheitum okkar gömlu leið um dalinn en á meðan sat ég stjarfur á baki hans því fyrr en varði stóðum við andspænis gráum, bröttum þokuveggnum sem bólgnaði út og gleypti í sig leiðina sem við áttum eftir ófarna. Við stigum inn í grátt, dimmt loftþykknið og eftir það gat ég ekki með nokkru móti séð hvar við vorum staddir. Ég hafði oft bölvað þrjóskunni í klárnum þegar hann silaðist með mig sína gömlu, duttlungafullu leið um dalinn en nú þótti mér vænt um að hann skildi bera mig samviskusamlega á hvern bæinn af öðrum svo ég mætti koma póstinum til skila. Frá því ég fékk þennan starfa hafði póstklárinn kunnað leiðina betur en ég sjálfur því hann hafði einnig borið fyrirrennara minn þessa sömu leið og það má segja að hann hafi fylgt starfinu alveg eins og póstskjóðan og lúðurinn. Mér hefði ekki boðist þetta starf nema af því að fyrirrennari minn sagði því skyndilega lausu og hvarf burt úr dalnum án þess að gefa á því nokkrar skýringar. Þetta var nokkrum mánuðum áður en ég fluttist í þessi heimkynni og mér skildist að enginn hefði fengist til að fara með póstinn í millitíðinni, sem mér var með öllu óskiljanlegt, því ég hafði sinnt þessu um nokkra hríð og líkaði vel. Mér var vel tekið hvar sem ég kom og var orðinn vinsæll hjá fólkinu í dalnum. Það bauð mér ósjaldan inn til að spyrja mig frétta af hinum bæjunum og þannig lá leið mín að ég þræddi mig bæ af bæ og barst sífellt innar í dalinn þar til ég kom að innsta bænum en þar fékk ég gjarnan næturgistingu.
Þegar ég hafði afhent fólkinu á innsta bænum póstinn sinn kom það þó örsjaldan fyrir að ég ætti einu verkefni ólokið. Það var lítið, næfurþunnt bréf sem endrum og sinnum barst einbúa nokkrum sem bjó hinum megin við skarðið fyrir botni dalsins. Þar sem víðáttumikil heiðin breiddi úr sér, tórði hann einsamall í niðurníddu hreysi sínu en til að komst þangað þurfti að krækja fyrir feiknastórt vatn sem maraði á heiðinni. Þetta var mikill farartálmi og óvíst að nokkrum póstsendingum hefði verið haldið úti yfir skarðið hefði bóndinn á innsta bænum ekki haldið við litlum árabát sem hægt var að nota til að stytta sér leið þvert yfir vatnið. Bóndanum á innsta bænum virtist vera þetta mikið í mun, að þessum póstsendingum væri haldið úti, enda hafði hann allt frá því að ég fluttist í dalinn verið gjörsamlega óþreytandi við að fræða mig um sérlyndislega hagi einbúans, en þau fræði voru öll frá fyrirrennara mínum komin eftir því sem bóndinn tjáði mér. Síðasta misserið eða svo var samt eins og bóndinn hefði lokið við að segja mér allt það sem hann vissi sjálfur en um leið var eins og hann hefði fengið óseðjandi áhuga á að heyra af því sem ég hefði séð í ferð minni með bréfið.
Mér gat stundum ofboðið æsingurinn meðan hann spurði mig hvers ég hefði orðið var. Það var nefnilega sjaldnast frá neinu að segja. Ég hafði komið fyrir leitið og séð hreysið hvíla á sínum gamla stað með einbúann standandi í dyragættinni viðbúinn komu minni. En þegar ég komst í kallfæri og hefði getað heilsað honum, hvarf hann inn í húsið svo ég var tilneyddur að elta hann inn ef ég vildi sýna honum kurteisi sem ég gerði iðulega þó að ég vissi að þetta væri aðeins bragð hjá honum til að fá mig inn til sín. Þegar ég hafði bograð inn í hreysið bað hann mig undantekningalaust að setja bréfið í gluggakistuna en snerti það ekki meðan ég var hjá honum. Mér var meinilla við að vera þarna inni og anda að mér daunillu loftinu sem rauk upp af fúnum viðnum í gólffjölunum sem komnar voru í mauk. Hann bauð mér ávallt sæti og talaði mikið og látlaust um líf sitt sem hann hafði átt áður en hann fluttist á heiðina. Þetta var að vísu siður í sveitinni, að spjalla við gesti sína, en það sem var óvenjulegt við gestrisni einbúans var að mér var hvorki boðið vott né þurrt. En ég var því feginn enda hafði mér nefnilega skilist að hann stundaði algjöran sjálfsþurftarbúskap og hefði ekki yfirgefið þetta óðal sitt svo árum skipti. Öll einveran sem hann hafði mátt þola var bersýnileg í hinum óskýra og samhengislausa flaumi af staðreyndum sem hann jós upp úr sér þar sem hann stóð á gólfinu. Hann fékk sér aldrei sæti heldur stóð alltaf á sama staðnum fyrir framan litlar dyr sem lágu í einhvern afkima hússins sem ég hafði aldrei barið augum og það var eins og hann vildi leyna einhverju. Ég furðaði mig á þessari undarlegu hegðun einbúans en bóndinn á innsta bænum hafði þó aldrei verið forvitinn um hvað væri á bak við þessar dyr og þegar ég minntist á þær við hann kom á hann undarlegur svipur sem mig langaði ekki til að framkalla á andliti hans í annað sinn og því forðaðist ég að nefna þetta atriði. Það sem bóndinn virtist hinsvegar hafa mikinn áhuga á voru ekki sögurnar sem einbúinn sagði mér, heldur spurði hann mig nákvæmlega um uppröðun ýmissa hversdagslegra hluta og ómerkilegra sem einbúinn hafði í hreysi sínu. Í hvert sinn sem ég kom þar sá ég að þeir hlutir sem bóndinn spurði vanalega um voru óhreyfðir og hafði ég haldið að það myndi verða bóndanum mikil vonbrigði en svo var ekki. Þvert á móti lifnaði yfir honum í hvert sinn sem ég staðfesti að hlutirnir væru enn ósnertir á sínum stað, eins og í því fælust einhver spennandi sannindi, en þau voru mér algjörlega óskiljanleg.
Þetta var þó ekki það eina sem var óvenjulegt við forvitni bóndans. Ég tók nefnilega eftir því einn daginn að utanáskriftin á bréfi nokkru, sem kona bóndans lét mig hafa, var dregin með nákvæmlega sömu hendi og áritunin á bréfum þeim sem ég færði einbúanum sérlundaða. Þetta þótti mér undarleg tilviljun því bréf einbúans bárust langt að með skipinu eins og flest öll bréfin sem ég dreifði um sveitina og hvernig gat þá utanáskriftin verið dregin með hendi bóndakonunnar? Til að komast að því gerðist ég svo djarfur að skoða í bréf einbúans til að vita hvort þar væri nokkuð að finna sem varpað gæti ljósi á þessa tilviljun. Þar sem bréfin til einbúans bárust ætíð með skipinu hafði ég talið að þau kæmu langt að en þegar ég hafði lokið við að lesa hvað í bréfinu stóð sá ég að það var undirritað af bóndanum á innsta bænum og í eftirskriftinni sagðist hann hafa beðið mig fyrir bréfið þegar ég hefði komið við hjá honum en það voru ósannindi því að ég var handviss um að þetta var eitt af þeim bréfum sem mér voru afhent úr skipinu. Þetta varð mér mikil ráðgáta en þó nefndi ég þetta ekki við bónda. Þess í stað fór ég að veita betur athygli þeim pósti sem ég tók á innsta bænum og leiddi sú rannsókn mig í allan sannleikann um það hvernig í málinu lá. Það var þegar ég gægðist í eitt umslagið sem ég tók hjá bóndahjónunum, og stílað var á systur bóndans sem bjó í öðrum landshluta langt í burtu þaðan, að ég veitti því athygli að í bréfinu var annað umslag sem stílað var á einbúann ásamt stuttum skilaboðum um að póstleggja þetta umslag sem fylgi. Það umslag var svo bréfið sem ég myndi nokkru síðar sækja í skipið og ferðast með yfir skarðið og færa einbúanum. Bóndinn á innsta bænum var sem sagt að láta mig fara með bréf frá sjálfum sér til þess eins að svala forvitni sinni um einbúann handan við skarðið. Hann hefði ekki getað beðið mig fyrir bréfin því hann vissi hve mikil vandræði voru að ferðast þessa leið, fyrir utan hversu slíkar bréfaskriftir hlutu að verka undarlega á mig sem þær gerðu. Því varð bréfið að koma langt að frá ókunnum sendanda.
Eftir að mér varð þetta ljóst fylltist ég gremju í garð bóndans. Þvílík dirfska að láta mig hafa fyrir því að þvælast með þetta auma, tilgangslausa bréf alla þessa leið þegar hann hefði svo auðveldlega getað farið sjálfur. Ég fékk mig samt ekki til þess að láta tilfinningar mínar í ljós við bóndann því ég hafði frétt af veikindum hans sem hann reyndi að fara leynt með. Á hinum bæjunum í sveitinni hafði ég frétt að þessi veikindi hefðu hrjáð hann um árabil og að læknirinn teldi að þau myndu brátt leggja hann í gröfina. Ég vildi ekki vera að elda grátt silfur við dauðvona mann. Síst af öllu þegar mér varð hugsað til þess hve glaður einbúinn varð komu minni. Þá ímyndaði ég mér nefnilega að þetta hlyti allt að vera af góðmennsku gert hjá bóndanum. En ef það var rétt reyndist mér samt sem áður ómögulegt að skilja af hverju hann færi ekki sjálfur og heimsækti þennan félaga sinn fyrst hann var svo fótafær sem raun bar vitni. Ég þreytti mig á því að telja mér trú um að hann kenndi í brjósti um einbúann og væri í rauninni að senda honum félagsskap með þessum bréfaskriftum. En ég varð samt sárlega móðgaður við að horfa uppá bóndann á innsta bænum ljúga vísvitandi í mig hvað eftir annað og þegar gremja mín hafði fengið að dafna nokkra hríð fann ég það upp hjá sjálfum mér að sleppa því einfaldlega, að færa einbúanum þau bréf sem honum bárust. Ég varð þó að koma því þannig fyrir að bóndinn á innsta bænum héldi að ég færi ennþá með bréfin og því fór ég vanalega drjúgan hluta leiðarinnar til einbúans en notaði svo tímann í að liggja einhversstaðar handan við skarðið á grasbala og hvíla mig eða skipuleggja afskipti mín af kvenfólkinu í sveitinni. Ég vildi sem sagt bíða og sjá til hvort þetta fyrirkomulag myndi ekki lognast útaf enda þótti mér það allsendis tilgangslaust. Það var að minnsta kosti sú ástæða sem hégómi minn kaus að nota til að afsaka þessa vanrækslu mína. En ég vissi vel að ástæðan væri í rauninni sú mikla ógn sem mér stóð af þessum undarlegu vélabrögðum.
Ég var einmitt að velta þessu fyrir mér þar sem ég ríghélt mér í taumana og starði blint út í hvíta þokuna meðan ég beið þess að hesturinn færðist hægt yfir skarðið. Ég gat ekkert séð nema rétt glitta í götuna þar sem hófar hestsins héldu sér í jörðina. Ég hefði viljað snúa til baka en þrjóskan í hrossinu leifði ekkert annað en að silast hægt fram á við og dýpra inn í þokuna. Mig hryllti við því að þurfa af einhverjum orsökum að fara af baki og verða jafnvel viðskila við hestinn þar sem ég hafði ekki nokkra hugmynd um hvar við vorum staddir né hvernig okkur miðaði áfram. Ég varð því mjög undrandi þegar mér fannst ég heyra yfirborðið í vatninu rjála við sandinn á bakkanum. Það þýddi að við vorum komnir yfir skarðið að stóra vatninu á heiðinni og að rétt handan við leitið hinum megin við vatnið hvíldi hreysi einbúans og biði eftir mér.
Ég steig af baki og teymdi klárinn með mér eftir bakkanum þar til fúið bátskriflið kom í ljós í þokunni. Ég ætlaði að snúa klárnum við og halda til baka en þá hafði enn ein þvermóðskan hlaupið í hann því hann stóð grafkyrr við landfestarnar eins og hann biði þess að ég færi út í bátinn. Ég vildi bíða og sjá hvort hann gæfi eftir en brátt fór mér að líða illa af því að halda kyrru fyrir þarna í þokunni því ég gat lítið séð í kringum mig en að sama skapi fannst mér ég vera farinn að heyra of vel. Ég brá á það ráð að binda klárinn við landfestarnar en leysa bátinn og ýta á flot. Ég ímyndaði mér að ef ég réri nógu langt út til að hesturinn missti sjónar af mér en snéri svo við og kæmi til baka þá myndi hann sættast og vilja halda heim á leið. En þegar ég hafði róið nógu langt frá bakkanum og var byrjaður að snúa bátnum varð mér skyndilega ljóst að ég hafði algjörlega tapað áttum. Þvílík flónska. Ég reyndi að píra augun út í hvítt þykknið fyrir framan nefið á mér en það var til einskis. Fyrir utan borðstokkinn dofnaði heimurinn og þynntist út í hvítt, eyðlegt tóm. Ég reyndi að róa eins beint og ég gat en það var eins og ég færðist ekki úr stað. Þegar ég hafði reynt þetta dágóða stund án árangurs fann ég hvernig einhverskonar fát kom á mig og ég var byrjaður að snúa bátunum enn einu sinni þegar ég heyrði eitthvert gösl nálgast og sá hvar hesturinn birtist frísandi á sundi út úr þokunni. Ég snéri bátnum í flýti og elti hestinn þar til ég fann að báturinn rakst upp í bakkann. Ég furðaði mig á þessari hegðun skepnunnar og þegar ég ætlaði að grípa í tauminn fór hún undan og ég horfði í örvæntingu á eftir henni hverfa inn í þokuna. Nú voru góð ráð dýr. Mig langaði helst til að leggjast niður og vita hvort hesturinn, sem hafði ávallt verið mér tryggur, myndi ekki vitja mín fyrr eða síðar. En ég sá mig tilneyddan að leita á náðir einbúans og skila af mér öllum bréfunum þó ég vissi að þá myndi upp komast um vanrækslu mína við að heimsækja hann. Og þannig áræddi ég að halda einsamall inn í þokuna.
Þegar ég hafði ráfað upp fyrir leitið sá ég eins og stóran skugga bíða í þokunni. Þetta hlaut að vera íverustaður einbúans en þegar nær dró sá ég að svo myndi ekki vera. Mér varð brugðið og fannst eins og þarna hlyti að hafa orðið einhver mikil breyting frá því ég kom þangað síðast en þegar ég kom enn nær varð mér ljóst að ég hafði leitað of langt til hliðar og ráfað að útihúsunum sem mig minnti að hefðu staðið steinsnar frá bænum. Vindaugað í hlöðunni fylgdist með mér nálgast húsin og þegar ég kom undir fjárhúsvegginn undraðist ég hve hljóðlátt féð hlyti að vera. Þangað hafði ég aldrei komið en mér hafði skilist að þar héldi einbúinn þann búpening sem hann dró fram lífið á. Ég vogaði mér að klifra upp á húsin til að vita hvort ég gæti gægst inn um skjáinn og svalað forvitni minni um það hversu margt fjár einbúinn héldi. Ég hafði aldrei spurt hann að þessu því ég vildi forðast að gefa honum nokkurt færi á að þvæla við mig meira en nauðsyn væri. Þegar ég skyggndist inn um skjáinn sá ég í sjónhendingu glitta í talsverðan fjölda af hvítum rolluhausum en um leið myrkvaðist króin þegar skugginn af mér kom inn í húsin. Ég óttaðist að reita einbúann til reiði með því að ríða húsum hans og ætlaði að fara fram fyrir húsin þegar ég finn hvernig þakið svíkur undir fótum mér með þeim afleiðingum að ég hlunkast niður í húsin og lendi flatur í krónni. Ég bjóst við að féð myndi tryllast við þessa óvæntu heimsókn og setti hendurnar fyrir mig til að það myndi ekki traðka í andlitinu á mér en af einhverjum sökum urðu engin viðbrögð í fjárhúsunum og þegar ég lít betur í kring um mig sé ég tómar, gapandi augntóftir horfa til mín úr öllum áttum. Ég reif mig upp úr risastórri beinaflækjunni sem glóði undir mér af allri birtunni sem kom niður um gatið á þakinu og ég ruddist í átt að dyrunum. Hurðarspjaldið var af hjörunum og lá um dyrnar þverar en í staðinn var grá þokan eins og veggur fyrir dyrunum. Meðan ég klofaðist yfir spjaldið tók ég eftir að það var eins og beinunum hefði verið raðað í einhver mynstur í krónni en ég skildi ekki hvernig á því gæti staðið og hraðaði mér skömmustulegur út í þokuna og hélt rakleiðis í átt að bænum.
Ég kom að bakhlið bæjarhússins en hana hafði ég aldrei áður litið augum og undraðist að hún væri svo mun hrörlegri að sjá en framhliðin. Þetta líktist frekar einhverskonar hrúgu en mannvirki en þó gat ég borið kennsl á gluggann þar sem ég hafði verið vanur að setja bréfin. Þau höfðu fokið úr gluggakistunni og lágu öll með tölu óopnuð á víð og dreif í grárri sinunni fyrir neðan gluggann, innanum einhver eldri bréf sem vindurinn hafði leikið sér að því að velkja um og hræra saman við stráin. Ég læddist fram fyrir bæinn en undraðist að sjá ekki einbúann standa og bíða mín í dyragættinni eins og hans hafði verið vani. Ég gægðist inn og kafaði í þokuna sem virtist vera ennþá þykkari inn undir lágu loftinu. Mér datt fyrst í hug reykur en daunninn var sá sami og ég hafði átt að venjast. Ég traðkaði á maukuðum viðarfjölunum inn á mitt gólfið og svipaðist um eftir formi einbúans í hvítu myrkrinu sem fyllti bæinn. Hann hefði allt eins geta staðið við hlið mér án þess að ég yrði þess var svo ég kallaði og spurði hvort einhver væri heima. Engin viðbrögð urðu við kallinu og ég reyndi að hlusta eftir því hvort hann hrærði sig einhversstaðar inni í bænum en varð einskis var fyrr en blýgrár svipur hans rennur á mig út úr hvítri þokunni og byrjar umsvifalaust að hvísla einhverjum orðum sem ég átti að þekkja.
Ég hörfaði undan honum í átt að dyrunum sem lágu inn í myrkan afkima hússins sem ég hafði aldrei barið augum og þegar það var ljóst að ég myndi líta leyndarmálið hans sá ég svipinn dofna og hverfa í þokuna. Þegar ég var kominn fyrir skakkan dyrakarminn stóð ég lamaður og horfði dapur í bragði á það sem hann hafði viljað fela. Það var ekkert annað en skítugt fleti þar sem uppskorpnaður nárinn af honum hnipraði sig saman með andlitið falið í höndum sér. Mér fannst ég aldrei hafa séð neinn liggja svona kyrrt og það var einhver hræðilegur tónn sem hékk ennþá storknaður í loftinu en ég gat ekki áttað mig á honum og mér fannst eins og ég yrði að sjá framan í hann. En þegar ég beygði mig nær andlitinu sá ég að í holdið hafði vaxið eitthvert skelfilegt, ómennskt svipbrigði og um leið var eins og losnaði um skerandi tóninn sem setið hafði fastur í loftinu og vindhviða þyti af stað inni í húsinu því einhver duftsalli rauk upp af fletinu og feyktist framan í mig. Ég flýtti mér skelfingu lostinn út úr bænum og hljóp blint út í þokuna bryðjandi rammt rykið. En þegar ég var kominn spölkorn frá bænum heyrði ég frekjulegt, dynjandi traðkið koma á eftir mér og fann hvernig ruðst var utan í mig svo ég fell í jörðina.
Þegar ég loksins gat opnað augun sá ég hvar skepnan snéri við og æddi blásandi til húsbónda síns. Við þustum burt af þessum álagabletti þar til dýrið steypti sér út í fimbulkalt vatnið. Hendur mínar krepptust utan um tauminn svo skein í beinaberar kjúkurnar og ég fylgdist óttasleginn með hvernig þær blánuðu og æðarnar sem birtust í handleggjunum sortnuðu af helköldum dauðanum sem smaug um þær. Fyrir framan mig sá ég hvernig veröldin birtist út úr hvítri þokunni, líkt og hún væri jafnóðum ofin úr loftinu einu saman, og ég skildi að það var aðeins vegna þess að ég var þarna að þvælast sem landslagið hafði fyrir því að vakna og rifja upp formið sem það hafði einhver tíma haft.
Ég kom blautur og úrvinda af þreytu niður úr skarðinu og heim á innsta bæinn í dalnum. Strax og ég kom var mér tjáð að veikindi bóndans hefðu versnað til mikilla muna og lagt hann í rúmið og því lágum við saman í fleti uppi á lofti um nóttina. Ég veltist um í svitakófi á meðan hann hríðskalf af kulda svo tennurnar í honum glömruðu. Samt var hann óvenju forvitinn um það hvers ég hefði orðið var í ferð minni og það var eitthvað í skjótu tilkasti augna hans sem sagði mér að nú lægi mikið við. Ég sagði honum að allt hefði verið eins og í fyrri heimsóknum mínum og ekkert hefði brugðið út af vananum fyrir utan eitt smáatriði sem ég hefði mikið hugsað um á leiðinni til baka en ekki fengið neinn botn í: Einbúinn hefði nefnilega beðið mig fyrir örlítil skilaboð til hans sem mér væri ekki ljóst hvað kynnu að merkja. Það lifnaði yfir bóndanum við að heyra þetta og ég reyndi að láta það hljóma sannfærandi þegar ég sagði honum að skilaboðin hefðu einfaldlega verið þannig að það væri ekkert að óttast. Hann var hugsi svolitla stund áður en hann snéri sér upp að þilinu. Mér fannst eins og mér bæri að segja eitthvað meira en ég vissi eiginlega ekki hvað það mætti vera og ég ákvað að leyfa honum að sofna í friði.
Um morguninn hafði hann kvatt.

Rúnar Snær