Tuesday, May 11, 2004

Aldan

Við höfðum brimað allan daginn en þegar tók að skyggja pökkuðum við saman og komum okkur vel fyrir í skálanum rétt fyrir ofan ströndina. Strákarnir voru farnir að grilla en ég hjálpaði þeim ekki því ég vildi heldur vera með Björgu inni í herbergi. Mikið var ég feginn að hún skyldi hafa komið með því í fyrsta skipti í langan tíma hvíldist ég á hinum döpru hugsunum sem höfðu ásótt mig eftir slysið. Þegar ég hafði fengið nóg af henni í bili fór ég að athuga hvernig gengi hjá strákunum og sá að það var orðið virkilega skuggsýnt fyrir utan. Það er svo skrítið, að hafið það breytist, þegar tekur að dimma. Þá er eins og verið sé að skipta um vatn í sjónum. Hið bláhvíta, glaðværa vatn streymir burt en í staðinn flæðir eitthvað kolgrátt inn í flóann og leggst upp að ströndinni. Í rauninn þá er þetta ekki vatn. Þetta er fljótandi myrkur sem engum okkar hafði nokkurntíma dottið í hug að halda útí.
Það snarkaði í kjötinu á grillinu en ég vissi að við myndum ekki borða fyrr en eftir dágóða stund svo ég hætti mér fram á veröndina og horfði út á dökkgráan hafflötinn sem gáraðist enn meir í svalri síðdegisgolunni. Þetta hafði verið frábær dagur og ég fann það á mér hversu notalegt kvöldið yrði inni í hlýjum skálanum. Það var óðum að verða aldimmt og ég gat naumast séð öldurnar úti á sjónum sem ennþá voru langar og jafnar og fullkomnar. Þegar ég leit yfir auða ströndina helltist sár tómleikinn yfir mig og einhver helkuldahrollur gagntók mig við tilhugsunina um að snerta gráan sjóinn en á einhvern hátt var það óbærilega spennandi. Ég undraðist þau mögnuðu áhrif sem vöknuðu í hjarta mínu við að sjá eymdina sem geislaði af dimmu landslaginu. Frá því að slysið varð höfðu ógnþrungnar tilfinningar heltekið hjarta mitt og um tíma óttaðist ég að þær myndu ná að granda mér. En þarna, um leið og þær höfðu verið magnaðar upp með þessum hætti, var líkt og álögum depurðarinnar hefði verið létt af mér og nýr galdur runnið á mig sem veitti mér innsýn í þá ógnarfegurð sem bjó í minningunni um þennan hryllilega atburð. Ég hafði margsinnis staðið með strákunum á bjargbrún og starað svimandi af græðgi niður til jarðar áður en við hentum okkur fram af. En það var lítilfjörleg kennd miðað við þann trylling sem geysaði í brjósti mínu við tilhugsunina um að steypa mér út í viðbjóðslegt myrkrið sem maraði upp við ströndina. Ég leit á brettið mitt þar sem það hékk uppi í rjáfri og það hlakkaði í mér því nú fyrst skildi ég hvað það hafði verið snjallt hjá mér þegar ég lét mála það eins og risastórt brúnt laufblað. Því þarna bærðist það í golunni. Þau voru öll inni í skála svo enginn sá þegar ég sleit laufið mitt niður af króknum og stormaði með það niður á strönd. Hláturinn ískraði niðri í mér þegar ég æddi eftir sandinum í átt að ólgandi sortanum sem hrærðist hvæsandi um í hálfrökkrinu. Öldugangurinn hafði breyst frá því um daginn. Það hafði fallið út og öldurnar byrjuðu að rísa mun lengra úti á sjónum. Ég stökk inn í kalda, úfna gusu sem var að krafsa inn á landið, og synti svo út yfir kolsvart dýpið. Ég þurfti ekki að líta til baka; ég fann það í maganum hvernig ég fjarlægðist skálann. Ég synti hratt því ég var ólmur í hinar ljótu hugsanir sem ég vænti að lifnuðu í huga mínum við að ég losnaði undan óþolandi nærveru skálans og yrði loksins einn í sjónum.
Hún reis upp úr hafinu, ekki svo langt í burtu, og ég synti eins hratt og ég gat svo ég næði henni nógu snemma. Aldan var löng og jöfn og um leið og ég komst upp á brettið þeytti hún mér áfram meðfram strandlengjunni og ennþá lengra í burtu frá skálanum. Hún hélt áfram að rísa upp við hlið mér eins og hún vildi mér eitthvað. Það var ómögulegt að sjá í gegnum hana því hún var kolgrá og ég heyrði að hún var byrjuð að falla að baki mér. Ég leit aftur og sá að í göngunum inni í öldunni var svarta myrkur. Hún fleytti brettinu sífellt hraðar og áður en ég vissi var hún farin að kastast yfir höfuðið á mér án þess þó að snerta mig og ég fann hvernig kalt myrkrið í göngunum færðist utanum mig. Herbergið var óvenju stórt í þetta sinn. Það kom samt ekki til greina að leika sér í öldunni því ég vildi ekki eiga á hættu að falla af brettinu og rjúfa hinn tryllingslega æsing sem því fylgdi að vera eltur af hreinu myrkri. Ég vissi að ég slyppi ekki. Framkastið í öldunni fór svo hratt. Ég kæmist ekki undan því. Og þá gerðist það. Aldan lokaðist. Hafið þagnaði. Og ég sé hvar hún stendur náföl fyrir aftan mig á brettinu. Það er hún. Og hún er komin úr draumnum. Og ásakandi auganráðið starir á mig úr krömdu andlitinu, þar til svelgurinn þrífur til mín og snýr mig niður í svart hyldýpið.
Mér skýtur upp einhverrstaðar innanum gráar bárurnar og ég legg á æðisgenginn flótta í átt að landi. Mér til hryllingsblandinnar hræðslu finn ég hvernig hinar myrku hugsanir slíta af sér öll þau bönd er ég hafði komið á þær. Svo snúast þær gegn mér og ljósta mig á ný af sinni gömlu ógn. Þetta hafði verið mér að kenna. Það vissu það allir og hafið bandar mér frá sér með gráum öldunum sem hrinda mér áfram í átt að landi. Þegar ég kem upp á ströndina sé ég mér til mikillar skelfingar að skálinn er í hvarfi og ég hleyp eins og fætur toga með brettið í eftirdragi þar til ég sé ljósin í skálagluggunum. Þá smeygi ég snúrunni af ökklanum og hraða mér upp á veröndina. Ég heyri hláturinn í strákunum við grillið og þeir fagna mér þegar ég slæst í hópinn. Ég reyni að standa nálægt þeim og þeir þagna þegar þeir sjá að mér er aftur farið að líða illa. Hitinn frá grillinu er notalegur en bak við mig bíður myrkrið og ég stirðna upp er ég finn kalda, blauta hönd hvíla á öxlinni á mér. Björg kemur innan úr skálanum og þegar hún stillir sér upp fyrir aftan mig hverfur höndin af öxlinni. Hún segir við mig að ég hafi verið með eitthvað skrítið laufblað límt við öxlina en rekur skyndilega upp hryllilegt öskur, fleygir því frá sér og við fylgjumst með svörtum krossfiskinum engjast um þar sem hann lendir í öskunni og glóandi kolunum.