Wednesday, May 07, 2003

Smyglið

Í útvarpsfréttum í gær var sagt frá því að tveir menn hefðu verið stöðvaðir í tollinum vegna grunsamlega háttsitjandi derhúfna. Við nánari skoðun kom í ljós að undir húfunum leyndist sítt-í-hnakka. Við líkamsleit á mönnunum kom síðarí ljós að þeir voru með samtals tvöhundruð músstös innanklæða, sem talið er að þeir hafi ætlað að koma í umferð hér á landi. Eftir yfirheyrslur þótti þó sannað að sítt-í-hnakkað hafi verið ætlað til einkaneyslu.
Í þessu samhengi var rifjað upp mál frá því fyrr í vetur þegar tveir þekktir tískuglæpamenn frá áttunda áratugnum komu með sítt þungarokkhár til landsins. Fylgst var með ferðum þeirra í borginni og sá lögregla þá hverfa inn í blokkaríbúð í Breiðholtinu. Ákveðið var að ráðast til inngöngu í íbúðina en þeir gera tilraun til flótta og ná að komast í rauða volvobifreið sem þeir höfðu til umráða en lið lögreglunnar veiti þeim eftirför. Hófst nú eltingarleikur sem endaði uppi við rauðavatn. Þar yfirgáfu mennirnir volvobifreið sína og hugðust komast hlaupandi undan lagana vörðum. Þeir voru þó fljótt gómaðir og þegar þeir voru sviptir derhúfum sínum kom í ljós að mennirnir höfðu smyglað sítt-í-hnakka til landsins í formi þungarokkshárs sem þeir höfðu svo klippt til í bæli sínu í Breiðholtinu. Við nánari eftirgrennslan lögreglunnar í íbúð mannanna fannst hið burtklippta hár ásamt tækjum til músstasgerðar.
Bæði þessi mál hafa vakið umtal í þjóðfélaginu og hafa jafnvel vakið raddir um lögleiðingu sítt-í-hnakka. Helstu fylgismenn slíkra skoðana nefna að sítt-í-hnakka sé vægt efni þar sem það megi fela undir húfum eða niðri í hálsmáli og sé í grundvallaratriðum ekki ósvipað öðrum greiðslum. Þeir sem andvígir eru lögleiðingunni nefna að sítt-í-hnakka kalli síðar meir á músstas sem hvergi geti dulist enda sé þar um miklu harðara efni að ræða.