Tuesday, May 25, 2004

Skelfing

Gamli maðurinn bjó einsamall í löngu tvílyftu raðhúsi og ég hafði verið ráðinn til að sjá um kvöldhjálpina hjá honum um óákveðinn tíma. Ég hafði komið til borgarinnar í leit að ævintýrum en virtist ætla að lenda aftur í sama farinu. En það var ekkert annað að hafa og ég vissi hvað það þýddi. Ef ég stæði mig vel gæti ég haldið starfinu eins lengi og mér hugnaðist og á meðan gamla manninum líkaði við mig þurfti ég ekki að óttast að þvælast atvinnulaus um göturnar og horfa á aurinn minn verða að engu. Mér var engan veginn stætt á því að hafna þessu. Öldungurinn var reyndar moldríkur og það var því ekki ónýtt að komast inn í nánasta þjónustulið hans. En ég vissi líka að ég yrði að hræsna fyrir honum og hinu þjónustufólkinu og mér bauð við smeðjulegu andrúmsloftinu sem ég vænti að ríkti þarna.
Mér varð þó nokkur huggun í þeirri trú að starfið yrði mér þægilegt því ég hafði einmitt fengið mikla reynslu í að umgangast gömul skör á hjúkrunarheimilinu þar sem móðir mín starfaði og ég ólst upp. Þar hafði ég vanist við að sjá gamla fólkið koma gjörsigrað og niðurbrotið inn á heimilið þegar það var hætt að geta séð um sig sjálft. Ég hafði svo fylgst með því liggja í kör síðustu ævidaga sína, viðurstyggilegt og illa þefjandi, þangað til það lognaðist útaf einhvern daginn. Þá var farið með það í trékössum út í garðinn þar sem jörðin gleypti það.
Á hjúkrunarheimilinu var fátt við að vera fyrir lítinn dreng innanum alla þessa gömlu óvita. Garðurinn var eina leiksvæði mitt og það var ávallt mikil tilbreyting þegar nýtekin gröf stóð opin svo hægt var að leggja hana undir sig og leika á botni hennar í nokkur eftirmiðdegi áður en hún yrði fyllt aftur. Það var líka óhemju spennandi þegar nárinn af einhverju gamalmenninu lá á börunum niðri í kjallaranum á meðan beðið var eftir að trékistan bærist frá kistusmiðjunni í borginni. Mér hafði verið stranglega bannað að fara niður í kjallarann þegar svo stóð á en það varð ekki til annars en að gera mig óbærilega forvitinn í að rannsaka hvað þar væri að sjá. Einhvern tíma hafði ég gægst inn á lækninn þegar hann hafði verið að ganga frá einni kerlingunni á börunum og þegar hann hafði lokið sér af og farið upp að sinna öðrum erindum stalst ég niður og tók hvítt lakið ofan af kerlingunni og reyndi svo að herma eftir hreyfingum læknisins. Ég fór höndum um velsmurðan náinn og undraðist hversu kaldur viðkomu hann var og glerharður á að taka. Og ef maður potaði fast í síðuna var eins og hún væri gerð úr leir. Það var alltaf mikil hátíð þegar mamma sagði mér að þessi eða hinn gamlinginn hefði gefið upp öndina því þá sætti ég færis að komast niður í kjallarann til að framkvæma athuganir mínar.
Vanalega lá gamla fólkið óvita fyrir og emjaði í rúmunum allan daginn. Ég gerði mér að leik að kasta í það smásteinum og sjá það kippast við undir sænginni. En dag nokkurn kom gamall karl á heimilið sem var ólíkur hinu fólkinu. Í fyrstu sýndi hann mér mikinn áhuga og vildi endilega spjalla við mig um eitt og annað en áður en langt um leið vorum við orðnir miklir fjandmenn. Hann fylgdist grannt með öllu sem fram fór í legusalnum og klagaði mig fyrir hjúkrunarkonunum sem skömmuðu mig og niðurlægðu móður mína í þokkabót. En það hafði aldrei verið eins gaman á hjúkrunarheimilinu því í þessum gamla fáráði hafði ég loksins eignast svarinn óvin. Ég gerði mér far um að skaprauna honum við hvert tækifæri og þegar hann sagðist mundu ná í rassgatið á mér og flengja mig þá sagði ég honum að hann myndi aldrei ná mér en ég myndi sko flengja hann. Hvernig ætlar þú að fara að því, litli tittur, spurði hann þá sposkur á svip og hafði greinilega gaman af. Þegar þú ert dauður, kallaði ég til baka, hrækti á gólfið og hljóp út að leika mér í tóftinni skammt frá þar sem ég hafði dregið saman nokkra hluti og slegið á þá eign minni.
Eftir þetta var eins og einhver deyfð hefði komið yfir karlfíflið og hann virti mig ekki viðlits lengur. Ég þorði þó ekki að gera honum neitt því hann klagaði allt um leið í hjúkrunarkonurnar. Það var ekki fyrr en ég hafði fundið upp slöngvibyssu sem nota mátti til að kasta smásteinum miklar vegalengdir að draga fór til tíðinda í viðskiptum mínum við fíflið. Þessa nýju hertækni gat ég nefnilega með engu móti staðist að prófa á einhverju verðugu skotmarki. Og hvað var betur fallið til þess arna en gamli kjaftaskurinn.
Það var einhvern daginn í eftirmiðdegismollunni að ég tók mér stöðu fyrir utan gluggann á legusalnum þar sem skörin lágu hrjótandi fyrir innan. Hjúkrunarkonurnar höfðu lokað hurðinni að legusalnum svo enginn var til að trufla mig enda fór ég mér að engu óðslega. Ég hafði safnað í vasa mína öllum þeim smásteinum sem ég hafði fundið og jafnvel skriðið um gólfið inn í legusalnum til að vita hvort einhverjir gamlir þjónar mínir lægju þar enn. Þegar því var lokið var mér ekkert að vanbúnaði og tók ég til við að sveifla slöngvibyssunni og halda uppi samfelldri skothríð á sofandi gamalmennin sem hrukku upp með andfælum af værum svefninum til verkjandi, farlama búka sinna í sjúkrarúmunum þegar steinvölurnar skullu á þeim. En hvernig sem ég hamaðist tókst mér ekki með nokkru móti að vekja árans karlfauskinn. Hann lét eins og ekkert væri og þóttist ekki taka eftir því þegar smásteinarnir skullu á smettinu á honum. Hann var greinilega að reyna að sigra mig en ég hafði allan daginn fyrir mér og sótti bara stærri steinvölur sem ég valdi af kostgæfni úr aðkeyrslunni. En viti menn allt kom fyrir ekki. Ég fór að óttast um að hjúkrunarkonurnar fengju heyrt í skothríðinni og kveininu í gamlingjunum svo ég hljóp inn og fór að tína steinana aftur ofan í vasa mína til síðari nota. En þegar ég er að tína í kringum rúmið hjá andskota mínum þá sé ég að hann muni vera skilinn við. Ég hljóp eins og fætur toguðu til að láta vita af þessari uppgötvun minni en snéri mér því næst að hinu mikla óunna verki sem ég átti fyrir höndum; að undirbúa og hafa til barefli fyrir flenginguna sem skildi fara fram strax þá um kvöldið.
Loksins var heimilið komið í ró en ég lá eftirvæntingarfullur í rúminu okkar mömmu og var kominn í náttfötin. Allt var eins og best var á kosið því að mamma ætlaði ekki að sofa í rúminu okkar sem þýddi að ég gæti látið til skara skríða. Brátt mátti ég ekki lengur halda aftur af mér og stökk fram úr rúminu og læddist gírugur niður í kjallara, girtur naglaspýtu sem mér hafði áskotnast. Læknirinn hafði verið að sinna ýmsum erindum í borginni og ekki komið heim fyrr en eftir kvöldmat og hafði tilkynnt yfir kvöldverðarborðið í mötuneytinu að hann ætlaði að geyma sér að skoða búkinn sem lægi á börunum niðri í kjallara þangað til daginn eftir. Þetta var því í fyrsta sinn sem ég fékk að vera fyrstur til að skoða einhvern gamlingjann áður enn honum yrði holað niður í garðinum.
Þegar ég svipti ofan af honum hvítu lakinu sá ég að hann lá með augun lokuð og ég dáðist að því hvernig andlitið lafði máttlaust utan á hauskúpunni. Það var þetta sérstaka svipbrigði sem aðeins finnst á dauðu fólki og ég hafði mikið spreytt mig á að setja upp fyrir framan spegilinn á baðinu. En hvernig sem ég reyndi tókst mér aldrei að láta andlitið hanga alveg máttlaust né að sjá sjálfan mig með lokuð augun í speglinum.
Ég hafði hraðar hendur við að velta máttlausum búknum yfir á bakið en hann reyndist of þungur og stirður til að það mætti takast. Hann var þó ekki orðinn sérstaklega kaldur og fitan var ekki hörðnuð ennþá. Ég áræddi að klöngrast upp á börurnar til að vita hvort mér gengi betur með því móti. Mér var þó illa við að fara upp á börurnar til hans því að ég vissi ekki betur en líkið ætti eftir að tæma sig. Börurnar voru svo grannar að ég sá fram á að þurfa að velta honum fram af börunum en ég hugðist einmitt bregða á það ráð og var búinn að taka í krumluna á honum og lyfta handleggnum upp þegar ég mætti glyrnum hans í glottandi andlitinu. Um leið fannst mér eins og stór krumlan sem ég rogaðist með hefði skyndilega lifnaði í höndunum á mér og hóf ég spýtuna á loft og lét ryðgaðan naglann koma niður á annað augað og ganga niður í augntóftina. Ég stökk niður af börunum og hljóp hálfa leið upp stigann en stansaði til að fylgjast með því hvernig naglaspýtan hékk í andlitinu á honum. Nú vissi ég upp á mig skömmina. Þetta yrðu hjúkrunarkonurnar ekki ánægðar með. Mér hafði verið stranglega bannað að fikta í líkunum og nú hafði kvöldvaktin eflaust heyrt skruðninga í kjallaranum og hraðaði sér þangað niður til að ávíta mig. Mig langaði að hlaupa til mömmu en nú var ég viss um að hún yrði líka reið við mig svo ég vissi eiginlega ekki hvað ég ætti til bragðs að taka. En í stað þess að leggjast í gólfið og grenja ákveð ég rétt sí svona að þetta sé rétta stundin að leggja á flótta og koma aldrei aftur.
Ég hljóp upp á gang og fram í forstofu þar sem ég stóð hikandi fyrir framan útidyrnar og hlustaði á nóttina hrista til trén í garðinum fyrir utan. Ég lagði smágert eyrað upp að þungri tréhurðinni og tók ofurhægt í hurðarhúninn en um leið og hurðin varð laus í falsinum fann ég mér til mikillar skelfingar hvernig henni var hrundið upp og þar stóð nóttin í bláum logum úti í garðinum. Stormurinn æddi inn um opnar dyrnar og það var eins og fötin í fatahenginu lifnuðu á herðatrjánum. Ég steig heillaður inn bláan bjarmann sem féll inn um dyrnar og starði dáleiddur á hvernig stormurinn sópaði laufunum upp úr háu grasinu og hengdi þau aftur á trén í garðinum. Blárri töfrabirtu stafaði af leiðinni sem ég átti ófarna niður að moldargrafningnum þar sem ég ætlaði að finna Spora og fá hann til að koma með mér.
Ég stalst berfættur út í nóttina og óð í háu grasinu sem barðist um í sterkum vindinum og slóst utan í mig þar til ég var kominn yfir að litla melnum en þar hafði ég skilið við hann Spora minn síðast. Ég kallaði til hans yfir moldarflagið og fylgdist með því hvort ég sæi nokkra hreyfingu á moldinni, en þegar svo var ekki lagðist ég á hnén og hóf að krafsa mig niður til hans og brátt kom svartur, moldugur feldurinn í ljós svo ég gat slitið hann upp úr jörðinni.
Ég hafði fundið Spora í vegkantinum einhvern daginn þar sem hann hoppaði áfram á framlöppunum og dró afturlappirnar á eftir sér. Afturhlutinn hlaut að hafa orðið undir bílhjóli og dáið en það var allt í lagi með framhlutann, allavega fyrst. Ég hafði tekið hann með mér og komið honum fyrir í tóftinni minni en hann vildi ekkert borða. Hann var alltaf að reyna að hoppa eitthvert í burtu svo ég brá á það ráð að binda framlappirnar á honum saman með snærisbútnum mínum. Þá lá hann bara svo ég gat mokað yfir afturhlutann en látið framhlutann standa upp úr jörðinni og spjallað við hann. Ég útlistaði fyrir honum hvernig ég ætlaði að kryfja hann þegar hann væri líka dáinn, en þegar til kastanna kom þá nennti ég því ekki og gróf hann bara í moldarflaginu skammt frá tóftinni minni og kíkti á hann annað slagið. Ég fór kannski og gróf hann upp og hafði hann hjá mér nokkra stund. En ég þorði þó aldrei að hafa Spora með mér heim og upp í rúm og því geymdi ég hann í moldarflaginu en hugsaði oft til hans á kvöldin þegar ég lá einsamall í rúminu og mamma svaf ekki inni hjá mér.
Hvass vindurinn þyrlaði moldinni upp í kringum okkur og fór innundir þunn náttfötin mín. Ég hélt Spora í fanginu á mér og ræddi við hann um það í hvaða átt við ættum að láta okkur hverfa inn í myrkrið. Skyndilega heyrði ég einhver hróp koma frá hjúkrunarheimilinu og þegar ég gægðist upp yfir barðið í tóftinni sá ég hersingu af hvítklæddum verum koma svífandi yfir garðinn.
Þær náðu mér á hlaupum með Spora í fanginu eftir vegkantinum ekki svo langt frá staðnum þar sem ég hafði fundið hann. Ég hafði búist við að mér yrði grimmilega refsað en einhverra hluta vegna vorkenndi fólkið mér. Spori var reyndar tekinn frá mér en í staðinn fékk ég hin ýmsu leikföng sem að ég átti að bauka eitthvað við uppi í herbergi en mér var bannað að fara oftar niður í tóft. Um veturinn yrði ég sendur í skólann.
Og ævintýrið var á enda. Mér var illa við krakkaskarann sem fór um með öskrum og ólátum í frímínútum en pískruðu illkvittnilega í kennslustundum. Ég hélt mig ævinlega til hlés enda hafði ég aldrei leikið mér við önnur börn og kunni ekki annað en að sveima um einsamall og finna mér eitthvað til dundurs. Hin börnin hræddust líka þennan einfara sem kunni ekki að óttast og sagði þeim furðulega hluti enda forðuðust þau að umgangast hann.
Þannig liðu þessi fáu skylduár í skólanum og að þeim loknum snéri ég aftur á hjúkrunarheimilið til móður minnar. Í fyrstu sumarleyfunum hafði ég ávallt verið feginn að snúa aftur á heimilið og endurheimta ríki mitt en þar átti sér stað mikil breyting. Mér hafði verið úthlutað hinum ýmsu störfum eins og að skræla kartöflur, tæma ruslafötur og annað smálegt sem lítill krakki getur innt af hendi án þess að stórvægilegt klúður hljótist af. Þegar skólanáminu var svo endanlega lokið var ég kominn á táningsaldur en það var ekki tilefni til neins annars en að mér skildi þrælað út eins og fullorðinni mannesku. Það var ekki lengur neinn sem hélt yfir mér verndarhendi. Á þessum árum sem ég dvaldist í skólanum yfir vetrartímann hafði móðir mín breyst í ókunnuga manneskju og mér leið asnalega að liggja við hliðina á þessari kerlingu á nóttunni ef hún svaf ekki einhversstaðar annarsstaðar. Tíminn leið fljótt og ég gleymdi mér við öll verkin sem þurfti að inna af hendi. Matseld, tauþvottur, böð, klósettferðir, skeiningar; hjúkrunarheimilið hélt áfram að afgreiða gamalmennin á færibandi. Stundum fannst manni eins og starfinu hlyti að ljúka bráðlega því að við værum búin að afgreiða öll gamalmennin en það virtist ekkert lát vera á streymi þeirra inn á heimilið. Þau komu og fóru án þess að maður stæði í því að kynnast neinu þeirra og garðurinn fyrir utan fylltist smám saman svo á endanum var farið að keyra líkin eitthvert í burtu til að urða þau.
Það var ekki fyrr en á átjánda aldursári mínu sem ég bar erindið upp við lækninn. Ég vildi komast burt. Hann virtist skilja mig og sagðist kannski geta styrkt mig aðeins svo að ég mætti komast á legg í borginni. Seinna sama dag hafði ég pakkað öllu saman, kvatt móður mína og haldið aftur á fund læknisins til að inna hann eftir loforðinu. Hann hafði til þessa smáupphæð sem hann hafði lofað mér, en það var skrítið hvað hann varð skyndilega aulalegur þegar hann rétti mér umslagið og hann fór aftur í skúffu sína og rétti mér nokkra seðla í viðbót áður en ég hvarf sjónum hans fyrir fullt og allt.
En þá var ég líka kominn til borgarinnar og ekki leið á löngu þar til ég hafði fundið mér litla íbúðarholu fyrir sanngjarnt leiguverð og þar hafði ég ekki hangið atvinnulaus lengi þegar starfið hjá gamla manninum hafði rekið á fjörur mínar. Það var reyndar eins og það hefði beðið eftir mér. Á öllum ráðningarskrifstofunum hékk þessi sama auglýsing þar sem starfslýsingin virtist þekkja mig. Mér leið eins og ég væri eftirlýstur eða að í borginni væri eitthvað sem sæti fyrir mér.
Ég gleymi því aldrei hvað ég varð undrandi þegar ég kom í fyrsta sinn inn til gamla mannsins. Að utan virtist íbúðin vera látlaus og ekki nema í meðallagi stór, en þegar inn var komið leyndist hver salurinn innaf öðrum og allir voru þeir klæddir íburðamiklum innréttingum sem fullar voru af einkennilegum munum hvaðanæva að úr veröldinni. Fornar, undarlegar styttur, uppstoppuð dýr og ósamstæð, gömul vopn stóðu hvað innanum annað og mynduðu einhverja sundurleita samsetningu sem þó fór að hafa eitthvert djöfullegt samkenni eftir því sem ég kom þarna oftar. Gamli maðurinn virtist ekki kæra sig um að koma nálægt þessu góssi enda hélt hann sig á efri hæðinni þar sem ekkert var að finna af þessum toga heldur aðeins þeir hversdagslegu hlutir sem maður væntir að finna á heimili gamals einstæðings. Ég var líka hættur að veita þessu drasli eftirtekt ef frá er talið eitt ónotalegt fyrirbæri sem ég komst ekki hjá að finna fyrir á hverju kvöldi þegar ég mætti á vaktina. Upp undir lofti sat uglufjandi og í hvert sinn sem ég kom innan úr forstofunni steypti hún augnaráði sínu niður á mig svo ég hrökk undan. Það var ekki hægt að greina á hvað hún horfði svona stíft og ef ég reyndi að horfast í augu við hana þá horfði hún bara í gegnum mig. Það gilti einu þó það væri aldimmt í stofunni. Ég gat fundið fyrir augnaráðinu þar sem það stakk mig í myrkrinu og þegar ég mætti á kvöldin hraðaði ég mér ævinlega beinustu leið upp á efri hæðina þar sem síðdegisvaktin var að ganga frá eftir kvöldmatinn.
Starfið fólst ekki í öðru en að dvelja hjá gamla manninum á hverju kvöldi frá því að síðdegisvaktin fór heim rétt eftir kvöldmat. Ég hafði búist við að síðdegisvaktin myndi geyma handa mér hin ýmsu verkefni til að inna af hendi en þegar ég kom á vaktina var það undantekningarlaust svo að öllu hafði verið lokið og ég þurfti ekki að gera annað en það sem til féll um kvöldið. Einhverra hluta vegna virtist gamli maðurinn þó ekki þarfnast neins því eftir að skyggja tók hélt hann ávallt kyrru fyrir í svefnherberginu þar sem hann sat upp við dogg en nálægt rúminu hafði verið komið fyrir hægindastól sem mér var ætlaður. Starfið fólst sem sagt aðeins í að sitja hjá gamla manninum og sjá til þess að hann vanhagaði ekki um neitt. Eina fasta verkefnið sem ég þurfti að inna af hendi var að aðstoða hann við að taka inn sterka svefnmixtúru úr flösku sem konurnar á síðdegisvaktinni skildu eftir á náttborðinu hjá honum. Þær höfðu meira að segja haft skeiðina til svo að ég þyrfti ekki að fara niður í eldhús til að sækja hana. Eftir að ég hafði gefið honum mixtúruna þurfti ég svo að sjá til þess að hann væri sofnaður áður því fyrr mátti ég ekki halda heim á leið. Það hafði meira að segja verið brýnt sérstaklega fyrir mér að yfirgefa hann ekki fyrr en ég hefði gengið úr skugga um að hann væri örugglega kominn í fasta svefn.
Ég hafði búist við að þurfa annað slagið að sækja handa honum eitt og annað, aðstoða hann við að komast á klósettið og ýmislegt smálegt en hann virtist ekki vilja yfirgefa svefnherbergið eftir myrkur og var yfir höfuð illa við að færa sig á milli herbergja. Einhvern tíma hafði hann átt eftir að klæða sig í náttserkinn þegar ég kom og það var undarlegt að sjá hvernig hann skimaði snögglega í kringum sig í hálfgerðu óðagoti um leið og höfuðið á honum kom út um hálsmálið á serknum. Það virtist fara sérstaklega illa í hann að geta ekki séð í kringum sig því það sama var upp á teningnum ef það kom fyrir að hann neyddist til að færa sig á milli herbergja. Þá laumaðist hann til að gjóa augunum útundan sér fyrir alla dyrakarmana meðan hann fikraði sig eftir ganginum. Það var eins og hann væri ókunnugur að skoða sig um þó hann hefði búið þarna um árabil. Ég hafði haldið að hann væri kannski að athuga hvort síðdegisvaktin væri ekki örugglega farin heim en eitt kvöldið, um það bil mánuði eftir að ég hafði verið ráðinn, komst ég að raun um hvað væri að fyrir gamla manninum.
Það var nokkuð liðið á kvöldið og ég nýbúinn að gefa honum svefnmeðalið þegar ég þurfti skyndilega að fara á klósettið. Ég spurði hann sísvona hvort honum væri sama þó að ég skryppi aðeins fram á gang og inn á klósettið. Hann sagði að það ætti nú ekki að gera mikið til og hann þyrfti eiginlega sjálfur að fara líka. Mér þótti þetta undarlegt því hann var vanur að sofna strax eftir að hafa gleypt í sig meðalið og hefði því átt að biðja mig að koma með sér á klósettið áður en ég hellti því ofan í hann. En ég hjálpaði honum fram úr rúminu og studdi eftir ganginum og fram að klósetthurðinni. Mér hafði verið sagt að hann væri sjálfbjarga á klósettinu svo ég spurði hann hvort að hann vildi ekki fara á undan en þá varð hann skömmustulegur og bað mig að koma með sér. Ég gerði eins og hann bað mig og reyndi að fylgjast ekki með því þegar hann rembdist árangurslaust við að kreista fram nokkra dropa. Hann stjáklaði svo yfir að handlauginni, þvoði sér um hendurnar og fór svo út að litlum baðherbergisglugganum þar sem hann tók í eitt hornið á gardínunum svo hann gæti þóst vera að líta út um gluggann meðan ég athafnaði mig. Þegar ég hafði klárað að þvo mér kallaði ég til hans að nú gætum við farið til baka og reyndi eins og ég gat að vera hress í málrómnum. En þegar gamli maðurinn snéri sér við sá ég að augun í honum voru fljótandi í táravatni og hann fylgdi mér þögull aftur inn í svefnherbergið og sagði ekki orð við mig það sem eftir var kvöldsins. Þannig var því þá varið. Gamli maðurinn gat ekki með nokkru móti verið einsamall en skammaðist sín greinilega fyrir það og því þorði ég ekki að nefna þetta einu orði.
Ég varð eiginlega undrandi á þessum kenjum í gamla manninum því ég vissi að hann hafði ferðast víða á sinni löngu ævi og á ferðalögum sínum hafði hann séð allan heiminn og hefði því átt að vera sæmilega upplýstur. En kannski hafði hann séð of mikið. Ég öfundaði hann samt af öllum sögunum sem hann gat sagt af ævintýrum sínum sem hann hafði lenti í um gjörvalla veröldina. Þannig sátum við saman og spjölluðum fram eftir kvöldi þangað til tími var kominn fyrir hann að taka inn svefnmeðalið en eftir það vildi hann lítið við mig tala og ég sat bara og beið eftir því að hann væri örugglega sofnaður sem var sjaldnast fyrr en þó nokkuð var liðið á nóttina. Þá gat ég loksins haldið heim á leið.
Það var sérstök tilfinning sem fylgdi því að hafa svona undarlegan vinnutíma. Að rölta eftir mannlausum götunum heim á leið þegar allir voru í fasta svefni nema ég. Vökutíminn hjá mér hafði færst til því þegar heim var komið gat ég sjaldnast sofnað en sat uppi og starði út í loftið og beið eftir að það myndi birta til um morguninn. Þá fór ég út og fylgdist með borgarbúunum fara ferða sinna. En ég hafði sárasjaldan nokkurt erindi og þvældist bara stefnulaust um. Starfið í kvöldhjálpinni hjá gamla manninum fékk ég borgað eins og um heilsdagsvinnu væri að ræða en það var litla aðra vinnu að hafa og því sóttist ég ekki eftir henni enda þarfnaðist ég ekki meiri peninga en ég þénaði hjá gamla manninum. Ég sofnaði vanalega rétt fyrir hádegismat og vaknaði um kvöldmatarleytið þegar tími var til kominn að ég skyldi halda á vit gamla mannsins.
Kvöldin hjá honum liðu reyndar hratt í fyrstu því hann hafði frá nógu að segja. En eftir því sem mánuðirnir liðu þá fór samtal okkar að gerast æ slitróttara með hverri vikunni því hann virtist vera búinn með flestar perlurnar sínar. Hann var farinn að endurtaka sig og segja mér sögur sem ég þekkti en þuldi þá hratt og án þess að hafa gaman af því sjálfur eins og honum bæri skylda til að segja eitthvað við mig áður en ég gæfi honum svefnmeðalið. Þegar ég gekk svo eftir götunum á heimleiðinni reyndi ég að þræða einhverja langa króka því ég kveið því að koma niður í auða íbúðarholuna til þess eins að bíða eftir birtingunni og að gæta farið út að fylgjast með fólkinu. Ég sat kannski á einhverju útikaffihúsinu og horfði á allt ókunnuga fólkið fara hjá eða gleymdi mér í einhverjum þönkum og vaknaði upp gangandi eftir strætunum. En brátt var ég orðinn uppgefinn á fyrirsjáanlegri hugsun minni og langaði aðeins að komast niður í íbúðarholuna til að ég gæti misst meðvitund í rúminu og vaknað endurnýjaður seinna um daginn til að fara á fund gamla mannsins.
Þegar gamli maðurinn virtist hafa sagt mér allt áttaði ég mig samt sem áður á því að hann hafði aldrei minnst á það einu orði hvernig hann hefði auðgast. Ég þóttist vita að hann hefði ekki erft ríkidæmi sitt því hann hafði sagt mér ýkjulegar sögur af basli foreldra sinna þegar hann var ungur. Mig langaði líka sérstaklega til að vita hvernig á því stæði að hann þorði ekki að vera einn nokkra stund. En ég vildi bíða og sjá til hversu lengi hann héldi út að rúlla þumalfingrunum í hringi í þögninni án þess að segja mér það. Þetta var eflaus eitthvað sem hann vildi ekki deila með ókunnugum og því reyndi ég að segja honum ýmislegt um sjálfan mig sem bæri vott um að ég treysti honum, svo við mættum verða einhverskonar trúnaðarvinir. Ég sagði honum frá því hvernig mér liði þegar ég kæmi út á morgnanna og þyrfti ekki að fara að vinna en það var eins og að ekkert sem ég hefði að segja gæti vakið nokkurn áhuga hjá honum. Ég skammaðist mín fyrir að hafa sagt honum þetta og ímyndaði mér að ég hlyti að vera svona fyrirsjáanlegur í augum þessa heimsborgara.
En þetta virtist þó hafa hrifið því að eitt kvöldið spyr hann mig upp úr þurru hvort mér finnist hann ekki vera kjánalegur að þora ekki að vera einsamall á kvöldin. Þetta kom eiginlega aftan að mér og ég þóttist ekkert vita og það fór í taugarnar á honum. Hann bað mig vinsamlegast að hræsna ekki í sínum húsum og þá játaði ég að hafa þótt það svolítið undarlegt en þó aðallega forvitnilegt. Hann hristi hausinn og sagði óþolinmóður að ef mér þætti þetta forvitnilegt væri það vegna þess að það væri undarlegt. Síðan hóf hann að segja mér söguna og þegar henni lauk varð ég fyrir miklum vonbrigðum með það hversu ómerkileg ástæðan var. Hann hafði verið einhverstaðar á ferðalagi, hann mundi ekki einu sinni í hvaða borg, og verið að ganga yfir fjölmennt torg þegar hann stoppaði við furðulegt smágert tjald, rauðlitað og sexhyrnt eins og lítið sirkustjald, sem hafði verið slegið upp á miðju torginu. Borgabúarnir veittu því enga eftirtekt og því stóð það þarna eins og illa gerður hlutur. Hann ákveður að stinga hausnum inn í það til að vita hvað þar væri til sölu en undraðist að sjá engan varning heldur aðeins síðhærða konu sitjandi á jörðinni með augun lokuð en þegar hann hafi ætlað að taka hausinn aftur út úr tjaldinu hafi konan beðið hann að koma aðeins nær. Síðan hafði hún boðið honum að hún skildi segja honum hvernig hann myndi deyja ef hann borgaði sér það sem hann þénaði á einum degi. Hann sagðist hafa tekið tilboði konunnar, rétt henni borgunina og þá hafi hún sagt að eitthvert kvöldið þegar hann væri orðinn saddur lífdaga myndi hann fá heimsókn að kvöldlagi sem myndi verða hans bani.
Hann brosti þegar hann hafði lokið við að segja mér þetta og mér var alveg ómögulegt að skilja hvernig honum hefði tekist að gera svona stórt vandamál úr þessu. Hann sagði að það hefði verið furðulegt hve fljótlega hann hefði gleymt þessu. Það hefði verið eins og því hefði verið stolið úr höfðinu á sér. Hann hefði síðan ekki munað eftir því fyrr en nokkrum vikum áður en hann auglýsti eftir kvöldhjálpinni. Síðan sagði hann mér hálf hlægjandi að nú vissi ég af hverju ég hefði verið ráðinn til þess eins að gefa honum eina skeið af svefnmixtúru. Ég reyndi að hlægja dálítið rækilega honum til samlætis en um leið og við þögnuðum heyri ég hvernig glymur frekjulega í dyrabjöllunni niðri við útidyrahurðina. Hann sýndi engin viðbrögð og lét eins og hann tæki ekki eftir þessu. Hann kallaði til mín hásum rómi einhver orð sem áttu að vera einhverskonar aðfinnslur út í það að ég hafði skilið hann einan eftir í herberginu, en ég hraðaði mér eftir myrkvuðum ganginum og niður í forstofuna svo að ég gæti opnað fyrir þeim sem væri að koma að heimsækja gamla manninn.
Ég stóð fyrir framan dyrnar í forstofunni og gat heyrt hvernig nóttin hrærðist fyrir utan. Ég þreif snöggt í hurðarhúninn og um leið og hurðin varð laus í falsinum fann ég hvernig henni var hrundið upp og þar stóð nóttin í bláum logum úti á tröppunum. Töfrabirta féll inn um dyrnar svo sterkum bjarma stafaði af leiðinni sem ég átti ófarna aftur inn á ganginn og upp til gamlingjans. Ég skellti hurðinni aftur í lás og stikaði af stað upp í herbergi en þegar ég kem inn úr forstofunni finn ég hvernig augnaráðið úr uglunni steypir sér niður á mig en nú starir hún ekki í gegnum mig heldur horfir stíft í augu mér og svo skyndilega á eitthvað fyrir aftan mig.
Ég æddi upp stigann og þrammaði inn eftir dimmum ganginum. Ég sé mér til mikillar undrunar að herbergi gamlingjans hafði myrkvast á meðan ég hafði verið að hleypa gestinum inn en þegar ég stíg inn í herbergið sé ég að glugginn stendur opinn upp á gátt svo gluggatjöldin sveima um herbergið. Himnasængin hafði líka verið toguð fyrir rekkju gamlingjans og þegar ég svipti henni til hliðar og hleypi tunglsljósinu inn í rekkjuna sé ég hvernig skelfingarsvipur hans gapir á veggnum. Ég furðaði mig á því hvernig hann hefði getað opnað munninn svona mikið en hann var þó alveg hljóður; það voru stjörf augun sem öskruðu af skelfingu á móti fölu tunglsljósinu sem steyptist niður í þau. Nú höfðu þau séð of mikið og hann kipptist til þegar kvikur skuggi kom yfir okkur. Í gluggakistunni bograði einhver smágerð mannvera og hagræddi dökkleitum grip í höndum sínum áður en hún stökk út. Ég hljóp að glugganum, hallaði mér út og sá hvernig hún handlangaði sig niður eftir þakrennurörinu og sameinaðist skugganum sem lak út úr húsasundinu og þusti upp eftir götunni. Allt í einu finn ég margar litlar krumlur þrífa utan um kálfana á mér og sturta mér út um gluggann og ég virði fyrir mér smásteinanna í götunni koma æðandi í andlitið á mér litli tittur.
Ég ligg einsamall í rúminu okkar mömmu og það gnauðar í brotnum herbergisglugganum. Þegar ég kem fram á gang sé ég að enginn er á kvöldvakt í tómum legusalnum. Ég hleyp inn á baðherbergi og lít í spegilinn. Loksins sé ég andlitið á mér hanga alveg máttlaust utan á höfuðkúpunni og dáist að því hvað augun mín séu falleg þegar þau eru lokuð því það er eins og augnlokin séu dálítið skökk fyrir augunum.
Ég opna útdyrahurðina og hleypi hvössum vindunum inn. Síðan læðist ég í gegnum garðinn framhjá rauða tjaldinu en hátt grasið berst um í vindinum og slæst utan í mig þar til ég kemst yfir á moldarflagið þar sem hann Spori minn liggur og bíður eftir mér. Ég held höfði hans fast upp að mér og kreisti það á meðan við komum okkur saman um það hvert við skulum flýja. Síðan gægjumst við varlega inn í rauða tjaldið þar sem nýtekin gröfin stendur auð. Þessi verður bara handa okkur.

Rúnar Snær

Wednesday, May 19, 2004

Næturstaður

Hvítt húsið stendur autt í frosnum skóginum. Yfirgefin húsgögnin hvíla í draumlausum svefni og tómir skápar standa geispandi þar sem þeir voru skildir eftir. Kalt bergmál fer um tóma gangana og óteljandi herbergin sem lykta af horfnum augnablikum og minningum sem dofnuðu og gleymdust einhversstaðar í fjarska. Gluggarnir horfa út í gráleita skógarflækjuna og veiða föla birtu sem kastast eirðarlaus á milli fábreytilegra veggjanna án þess að mæta neinum á þögulum göngunum. En hún hættir sér ekki niður mjóan stigann í eldhúsinu því hann liggur ofan í dimman kjallarann þar sem þvalir múrsteinsveggir umlykja óslétt moldargólfið.

Vindurinn líður sporlaust gegnum skóginn og nálgast húsið og í einu herbergjanna vaknar sárt, skerandi kvein. Upp úr kjallaranum liggja fúnar viðartröppur sem enda inn á eldhúsgólfinu sem er lagt með tígullaga flísum sem springa hver af annarri þegar húsið hniprar sig saman í vetrarfrostinu. Til að komast úr eldhúsinu og fram á gang þarf maður að fara yfir þröskuldinn undir eldhúshurðinni en hann er svo hár að maður getur dottið um hann ef maður hleypur. Og ef maður hleypur nógu hratt eftir viðarfjölunum á ganginum er hægt að fá flísar í tásurnar en það er ekki hægt í stiganum sem liggur upp á efri hæðina því hann er klæddur með teppi. Stóri tréhnúðurinn sem einu sinni var efst í stigahandriðinu er týndur en mjór dregill liggur inn eftir öllum ganginum á efri hæðinni að hurðinni með læsingunni sem skemmdist. Herbergið hefur lifnað við undan sáru kveininu sem berst úr falsinum í kringum gluggann. Það ekki er hægt loka honum almennilega því lamirnar skemmdust einu sinni þegar reynt var að opna hann of mikið og smjúga út um rifuna og út á þakið fyrir neðan. Vindurinn kveinar í falsinum og sárt kveinið berst út um dyrnar sem ekki er hægt að læsa, eftir dreglinum sem liggur út ganginn að stiganum, framhjá týnda hnúðnum, niður mjúkt teppið í stiganum, eftir viðarfjölunum sem brenna á manni hnén, yfir þröskuldinn inn í eldhús sem er ekki nógu stór til að hægt sé að halda sér í hann þegar maður er dreginn yfir á tígullaga flísarnar á eldhúsgólfinu. En kveinið heyrist ekki niðri í dimmum kjallaranum þar sem þvalir múrsteinsveggirnir umlykja óslétt moldfargólfið.

Í þíðunni fer húsið að teygja úr sér og kæfðir dynkir berast niður í kjallarann þegar tígullaga flísarnar halda áfram að springa upp úr eldhúsgólfinu. Droparnir sem falla úr loftinu mynda misstóra polla á víð og dreif um húsið og hver þeirra slær sína nótu í tilhlökkunarfullu laginu sem húsið leikur á vorin. Og áður en langt um líður eru holir veggirnir farnir að iða af lífi.

Ferðalangurinn slítur sig lausan úr grænu laufþykkninu, strýkur svitann af enninu og virðir undrandi fyrir sér þennan hvíta fyrirburð inni í miðjum skóginum. Í kringum húsið er hátt gras og upp úr óræktinni í garðinum rísa tignarlegar eikur óskyldar kræklóttum hríslunum sem flækjast hver um aðra þvera í skógarþykkninu í kring. Allan hringinn umhverfis húsið er eins og skógurinn hafi hrökklast skömmustulegur undan augnaráði dökkra glugganna í húsinu. Ferðalangurinn gengur upp að veröndinni og þegar hann stekkur upp á pallinn heyrist dynkur í viðnum og brestir fara um húsið eins og tréverkið hafi hrokkið við.

Umgangurinn á veröndinni heyrist inni í húsið og kannski er einhver að koma í heimsókn. Það er tekið í hurðarhúninn og lagst á hurðina þar til karmjárnið brotnar út úr fúnum dyrakarminum og bresturinn heyrist alla leið inn í dagstofuna. Það er styttra að hlaupa upp í herbergi úr dagstofunni heldur en innan úr eldhúsi. Það er heldur enginn þröskuldur sem maður getur dottið um, en maður verður samt að passa sig að hlaupa ekki of hratt á ganginum svo að maður fái ekki flísar í tásurnar. Stiginn er sem betur fer með mjúku teppi sem nær alla leið þangað sem hnúðinn vantar á handriðið. Það er mjór dregill á ganginum uppi sem liggur að herbergishurðinni en það er ekki lengur hægt að læsa henni. Inni í herberginu er ekkert nema gluggi en það er ekki hægt að fara út um hann til að komast út á þakið fyrir neðan.

Ferðalangurinn tekur af sér bakpokann og skilur við hann í forstofunni. Það var skrítið að koma fyrir hornið fram á ganginn og horfa um húsið og sjá alla þessa hluti sem voru inni húsinu og enginn hafði horft á svo lengi. Það var eins og þeim hefði verið komið að óvörum og það tæki þá augnablik að stilla sér upp. Ferðalangurinn gengur eftir viðarfjölunum á ganginum og hlustar á húsið bregðast við fótataki sínu þar til hann staðnæmist í dyrunum inn í dagstofuna. Rykið svífur um í mollunni og ljómar upp í sólargeislunum sem brjótast inn á milli þungra gluggatjaldanna og nú fyrst finnur hann hve loftið inni í fúnu húsinu er gamalt og þungt. Það var samt eitthvað skrítið við að vera bara allt í einu staddur inni í dimmri dagstofu því fyrir stundarkorni hafði hann eiginlega verið orðinn villtur í sólbjörtum skóginum. Hann lætur fallast í rykugan armstól með vínrauðu áklæði og horfir upp um veggina þar sem skuggarnir af horfnum málverkum hanga enn í upplituðu veggfóðrinu og á yfirgefna hlutina sem enn eru þar sem einhver sleppti af þeim hendinni. Skyndilega er lífið í húsinu farið að geisla af þessari gömlu dagstofu og hann hrekkur við þegar honum finnst hann finna bökunarlykt laumast innanum fúann í loftinu. Alveg rétt. Það er sunnudagur. Það hafði ekki verið í skóginum en núna fann hann rólegt sunnudagsíðdegið þar sem það leið í loftinu innan um rykið í brúnum geislunum sem stafaði inn á milli gluggatjaldanna. Ferðalangurinn hugsar með sér að hann þurfi ekki að tjalda og um leið sígur yfir hann höfgi og þegar hann leyfir augnlokunum að falla aftur, heyrir hann hvernig óteljandi laufblöðin í trjánum fyrir utan blakta í léttri golunni og áður en hann veit af er hann sokkinn í djúpan svefn og bráðum er enn eitt bjart sumarkvöldið farið að dotta inni í dagstofunni og ferðalangurinn steinsefur einhversstaðar inni í ókunnu húsi sem falið er djúpt inni í skóginum.

Eftir ganginum á efri hæðinni liggur mjór dregill að stiganum. Teppið í stiganum er svo mjúkt að það heyrist ekki þegar maður læðist niður. Það heyrist heldur ekki neitt í viðarfjölunum á ganginum niðri ef maður læðist inn í setustofuna þar sem ókunnugur maður sefur í húsbóndastólnum. Það er ábyggilega hægt að fá hann til að koma með niður að vatni áður en það kólnar meira.

Um morguninn vakar ferðalangurinn upp frá undarlegum draumi sem hann ekki skilur. Hann hefur sofið í öllum fötunum sem eru orðin gegndrepa af köldum svita og meira að segja skórnir eru blautir. Þar er eins og hann hafi misst af einhverju með því að hafa sofið svona lengi og hann drífur sig fram í forstofuna þar sem bakpokinn hans stendur ekki lengur upp við vegginn heldur hefur runnið til og liggur á gólfinu. Ferðalangurinn opnar hurðina og stígur út á veröndina eins og hann hafi gert það á hverjum morgni og virðir fyrir sér rákina í hávöxnu grasinu sem liggur að staðnum þar sem hann kom út úr skógarþykkninu. En á öðrum stað, til hliðar við húsið, opnast einhver stígur sem liggur niður á við eitthvert inn í skóginn og upp úr stígnum kemur einhver slóð sem liggur að tröppunum upp á veröndina og inn um opnar dyrnar fyrir aftan hann. Ferðalangurinn þrífur bakpokann sinn í flýti, veður út í hátt grasið sem flækist um þunga skóna og læðist skömmustulegur í burtu frá húsinu lítandi við í njósn um mannlausa forstofuna og hreyfingarlaus gluggatjöldin.

Skyndilega er húsið aftur orðið þögult. Frá herberginu sem ekki er hægt að læsa liggur mjór dregill að óhreinum hnúðnum sem hreykir sér efst í stigahandriðinu. Það er hægt að taka hnúðinn af og hann skemmist ekkert þó að maður láti hann rúlla niður stigann því að það er teppi í stiganum. Svo er líka hægt að fara með hann út og sparka honum á undan sér niður að vatni þar sem hægt er að láta hann sigla á vatninu. En maður verður líka að passa hann vel.

Hvítt húsið stendur autt í grænum skóginum. Tignarlegar eikur rísa upp úr garðinum í kring og þungar laufkrónurnar hrærast um í hlýrri sumardagsgolunni og varpa fjörugum smáskuggum inn um gluggana og inn í herbergin þar sem þeir leika sér í algleymi um gólfin án þess að mæta neinum á þögulum göngunum eða í herbergjunum sem lykta af horfnum augnablikum og minningum sem dofnuðu og gleymdust einhversstaðar í fjarska.

Tuesday, May 11, 2004

Aldan

Við höfðum brimað allan daginn en þegar tók að skyggja pökkuðum við saman og komum okkur vel fyrir í skálanum rétt fyrir ofan ströndina. Strákarnir voru farnir að grilla en ég hjálpaði þeim ekki því ég vildi heldur vera með Björgu inni í herbergi. Mikið var ég feginn að hún skyldi hafa komið með því í fyrsta skipti í langan tíma hvíldist ég á hinum döpru hugsunum sem höfðu ásótt mig eftir slysið. Þegar ég hafði fengið nóg af henni í bili fór ég að athuga hvernig gengi hjá strákunum og sá að það var orðið virkilega skuggsýnt fyrir utan. Það er svo skrítið, að hafið það breytist, þegar tekur að dimma. Þá er eins og verið sé að skipta um vatn í sjónum. Hið bláhvíta, glaðværa vatn streymir burt en í staðinn flæðir eitthvað kolgrátt inn í flóann og leggst upp að ströndinni. Í rauninn þá er þetta ekki vatn. Þetta er fljótandi myrkur sem engum okkar hafði nokkurntíma dottið í hug að halda útí.
Það snarkaði í kjötinu á grillinu en ég vissi að við myndum ekki borða fyrr en eftir dágóða stund svo ég hætti mér fram á veröndina og horfði út á dökkgráan hafflötinn sem gáraðist enn meir í svalri síðdegisgolunni. Þetta hafði verið frábær dagur og ég fann það á mér hversu notalegt kvöldið yrði inni í hlýjum skálanum. Það var óðum að verða aldimmt og ég gat naumast séð öldurnar úti á sjónum sem ennþá voru langar og jafnar og fullkomnar. Þegar ég leit yfir auða ströndina helltist sár tómleikinn yfir mig og einhver helkuldahrollur gagntók mig við tilhugsunina um að snerta gráan sjóinn en á einhvern hátt var það óbærilega spennandi. Ég undraðist þau mögnuðu áhrif sem vöknuðu í hjarta mínu við að sjá eymdina sem geislaði af dimmu landslaginu. Frá því að slysið varð höfðu ógnþrungnar tilfinningar heltekið hjarta mitt og um tíma óttaðist ég að þær myndu ná að granda mér. En þarna, um leið og þær höfðu verið magnaðar upp með þessum hætti, var líkt og álögum depurðarinnar hefði verið létt af mér og nýr galdur runnið á mig sem veitti mér innsýn í þá ógnarfegurð sem bjó í minningunni um þennan hryllilega atburð. Ég hafði margsinnis staðið með strákunum á bjargbrún og starað svimandi af græðgi niður til jarðar áður en við hentum okkur fram af. En það var lítilfjörleg kennd miðað við þann trylling sem geysaði í brjósti mínu við tilhugsunina um að steypa mér út í viðbjóðslegt myrkrið sem maraði upp við ströndina. Ég leit á brettið mitt þar sem það hékk uppi í rjáfri og það hlakkaði í mér því nú fyrst skildi ég hvað það hafði verið snjallt hjá mér þegar ég lét mála það eins og risastórt brúnt laufblað. Því þarna bærðist það í golunni. Þau voru öll inni í skála svo enginn sá þegar ég sleit laufið mitt niður af króknum og stormaði með það niður á strönd. Hláturinn ískraði niðri í mér þegar ég æddi eftir sandinum í átt að ólgandi sortanum sem hrærðist hvæsandi um í hálfrökkrinu. Öldugangurinn hafði breyst frá því um daginn. Það hafði fallið út og öldurnar byrjuðu að rísa mun lengra úti á sjónum. Ég stökk inn í kalda, úfna gusu sem var að krafsa inn á landið, og synti svo út yfir kolsvart dýpið. Ég þurfti ekki að líta til baka; ég fann það í maganum hvernig ég fjarlægðist skálann. Ég synti hratt því ég var ólmur í hinar ljótu hugsanir sem ég vænti að lifnuðu í huga mínum við að ég losnaði undan óþolandi nærveru skálans og yrði loksins einn í sjónum.
Hún reis upp úr hafinu, ekki svo langt í burtu, og ég synti eins hratt og ég gat svo ég næði henni nógu snemma. Aldan var löng og jöfn og um leið og ég komst upp á brettið þeytti hún mér áfram meðfram strandlengjunni og ennþá lengra í burtu frá skálanum. Hún hélt áfram að rísa upp við hlið mér eins og hún vildi mér eitthvað. Það var ómögulegt að sjá í gegnum hana því hún var kolgrá og ég heyrði að hún var byrjuð að falla að baki mér. Ég leit aftur og sá að í göngunum inni í öldunni var svarta myrkur. Hún fleytti brettinu sífellt hraðar og áður en ég vissi var hún farin að kastast yfir höfuðið á mér án þess þó að snerta mig og ég fann hvernig kalt myrkrið í göngunum færðist utanum mig. Herbergið var óvenju stórt í þetta sinn. Það kom samt ekki til greina að leika sér í öldunni því ég vildi ekki eiga á hættu að falla af brettinu og rjúfa hinn tryllingslega æsing sem því fylgdi að vera eltur af hreinu myrkri. Ég vissi að ég slyppi ekki. Framkastið í öldunni fór svo hratt. Ég kæmist ekki undan því. Og þá gerðist það. Aldan lokaðist. Hafið þagnaði. Og ég sé hvar hún stendur náföl fyrir aftan mig á brettinu. Það er hún. Og hún er komin úr draumnum. Og ásakandi auganráðið starir á mig úr krömdu andlitinu, þar til svelgurinn þrífur til mín og snýr mig niður í svart hyldýpið.
Mér skýtur upp einhverrstaðar innanum gráar bárurnar og ég legg á æðisgenginn flótta í átt að landi. Mér til hryllingsblandinnar hræðslu finn ég hvernig hinar myrku hugsanir slíta af sér öll þau bönd er ég hafði komið á þær. Svo snúast þær gegn mér og ljósta mig á ný af sinni gömlu ógn. Þetta hafði verið mér að kenna. Það vissu það allir og hafið bandar mér frá sér með gráum öldunum sem hrinda mér áfram í átt að landi. Þegar ég kem upp á ströndina sé ég mér til mikillar skelfingar að skálinn er í hvarfi og ég hleyp eins og fætur toga með brettið í eftirdragi þar til ég sé ljósin í skálagluggunum. Þá smeygi ég snúrunni af ökklanum og hraða mér upp á veröndina. Ég heyri hláturinn í strákunum við grillið og þeir fagna mér þegar ég slæst í hópinn. Ég reyni að standa nálægt þeim og þeir þagna þegar þeir sjá að mér er aftur farið að líða illa. Hitinn frá grillinu er notalegur en bak við mig bíður myrkrið og ég stirðna upp er ég finn kalda, blauta hönd hvíla á öxlinni á mér. Björg kemur innan úr skálanum og þegar hún stillir sér upp fyrir aftan mig hverfur höndin af öxlinni. Hún segir við mig að ég hafi verið með eitthvað skrítið laufblað límt við öxlina en rekur skyndilega upp hryllilegt öskur, fleygir því frá sér og við fylgjumst með svörtum krossfiskinum engjast um þar sem hann lendir í öskunni og glóandi kolunum.

Monday, May 10, 2004

Móðan

Aðeins ég hafði fundið hvernig það nálgaðist. Hvítt þokuloft sem seildist niður úr skarðinu og stefndi á móti okkur. Póstklárinn mjakaðist í rólegheitum okkar gömlu leið um dalinn en á meðan sat ég stjarfur á baki hans því fyrr en varði stóðum við andspænis gráum, bröttum þokuveggnum sem bólgnaði út og gleypti í sig leiðina sem við áttum eftir ófarna. Við stigum inn í grátt, dimmt loftþykknið og eftir það gat ég ekki með nokkru móti séð hvar við vorum staddir. Ég hafði oft bölvað þrjóskunni í klárnum þegar hann silaðist með mig sína gömlu, duttlungafullu leið um dalinn en nú þótti mér vænt um að hann skildi bera mig samviskusamlega á hvern bæinn af öðrum svo ég mætti koma póstinum til skila. Frá því ég fékk þennan starfa hafði póstklárinn kunnað leiðina betur en ég sjálfur því hann hafði einnig borið fyrirrennara minn þessa sömu leið og það má segja að hann hafi fylgt starfinu alveg eins og póstskjóðan og lúðurinn. Mér hefði ekki boðist þetta starf nema af því að fyrirrennari minn sagði því skyndilega lausu og hvarf burt úr dalnum án þess að gefa á því nokkrar skýringar. Þetta var nokkrum mánuðum áður en ég fluttist í þessi heimkynni og mér skildist að enginn hefði fengist til að fara með póstinn í millitíðinni, sem mér var með öllu óskiljanlegt, því ég hafði sinnt þessu um nokkra hríð og líkaði vel. Mér var vel tekið hvar sem ég kom og var orðinn vinsæll hjá fólkinu í dalnum. Það bauð mér ósjaldan inn til að spyrja mig frétta af hinum bæjunum og þannig lá leið mín að ég þræddi mig bæ af bæ og barst sífellt innar í dalinn þar til ég kom að innsta bænum en þar fékk ég gjarnan næturgistingu.
Þegar ég hafði afhent fólkinu á innsta bænum póstinn sinn kom það þó örsjaldan fyrir að ég ætti einu verkefni ólokið. Það var lítið, næfurþunnt bréf sem endrum og sinnum barst einbúa nokkrum sem bjó hinum megin við skarðið fyrir botni dalsins. Þar sem víðáttumikil heiðin breiddi úr sér, tórði hann einsamall í niðurníddu hreysi sínu en til að komst þangað þurfti að krækja fyrir feiknastórt vatn sem maraði á heiðinni. Þetta var mikill farartálmi og óvíst að nokkrum póstsendingum hefði verið haldið úti yfir skarðið hefði bóndinn á innsta bænum ekki haldið við litlum árabát sem hægt var að nota til að stytta sér leið þvert yfir vatnið. Bóndanum á innsta bænum virtist vera þetta mikið í mun, að þessum póstsendingum væri haldið úti, enda hafði hann allt frá því að ég fluttist í dalinn verið gjörsamlega óþreytandi við að fræða mig um sérlyndislega hagi einbúans, en þau fræði voru öll frá fyrirrennara mínum komin eftir því sem bóndinn tjáði mér. Síðasta misserið eða svo var samt eins og bóndinn hefði lokið við að segja mér allt það sem hann vissi sjálfur en um leið var eins og hann hefði fengið óseðjandi áhuga á að heyra af því sem ég hefði séð í ferð minni með bréfið.
Mér gat stundum ofboðið æsingurinn meðan hann spurði mig hvers ég hefði orðið var. Það var nefnilega sjaldnast frá neinu að segja. Ég hafði komið fyrir leitið og séð hreysið hvíla á sínum gamla stað með einbúann standandi í dyragættinni viðbúinn komu minni. En þegar ég komst í kallfæri og hefði getað heilsað honum, hvarf hann inn í húsið svo ég var tilneyddur að elta hann inn ef ég vildi sýna honum kurteisi sem ég gerði iðulega þó að ég vissi að þetta væri aðeins bragð hjá honum til að fá mig inn til sín. Þegar ég hafði bograð inn í hreysið bað hann mig undantekningalaust að setja bréfið í gluggakistuna en snerti það ekki meðan ég var hjá honum. Mér var meinilla við að vera þarna inni og anda að mér daunillu loftinu sem rauk upp af fúnum viðnum í gólffjölunum sem komnar voru í mauk. Hann bauð mér ávallt sæti og talaði mikið og látlaust um líf sitt sem hann hafði átt áður en hann fluttist á heiðina. Þetta var að vísu siður í sveitinni, að spjalla við gesti sína, en það sem var óvenjulegt við gestrisni einbúans var að mér var hvorki boðið vott né þurrt. En ég var því feginn enda hafði mér nefnilega skilist að hann stundaði algjöran sjálfsþurftarbúskap og hefði ekki yfirgefið þetta óðal sitt svo árum skipti. Öll einveran sem hann hafði mátt þola var bersýnileg í hinum óskýra og samhengislausa flaumi af staðreyndum sem hann jós upp úr sér þar sem hann stóð á gólfinu. Hann fékk sér aldrei sæti heldur stóð alltaf á sama staðnum fyrir framan litlar dyr sem lágu í einhvern afkima hússins sem ég hafði aldrei barið augum og það var eins og hann vildi leyna einhverju. Ég furðaði mig á þessari undarlegu hegðun einbúans en bóndinn á innsta bænum hafði þó aldrei verið forvitinn um hvað væri á bak við þessar dyr og þegar ég minntist á þær við hann kom á hann undarlegur svipur sem mig langaði ekki til að framkalla á andliti hans í annað sinn og því forðaðist ég að nefna þetta atriði. Það sem bóndinn virtist hinsvegar hafa mikinn áhuga á voru ekki sögurnar sem einbúinn sagði mér, heldur spurði hann mig nákvæmlega um uppröðun ýmissa hversdagslegra hluta og ómerkilegra sem einbúinn hafði í hreysi sínu. Í hvert sinn sem ég kom þar sá ég að þeir hlutir sem bóndinn spurði vanalega um voru óhreyfðir og hafði ég haldið að það myndi verða bóndanum mikil vonbrigði en svo var ekki. Þvert á móti lifnaði yfir honum í hvert sinn sem ég staðfesti að hlutirnir væru enn ósnertir á sínum stað, eins og í því fælust einhver spennandi sannindi, en þau voru mér algjörlega óskiljanleg.
Þetta var þó ekki það eina sem var óvenjulegt við forvitni bóndans. Ég tók nefnilega eftir því einn daginn að utanáskriftin á bréfi nokkru, sem kona bóndans lét mig hafa, var dregin með nákvæmlega sömu hendi og áritunin á bréfum þeim sem ég færði einbúanum sérlundaða. Þetta þótti mér undarleg tilviljun því bréf einbúans bárust langt að með skipinu eins og flest öll bréfin sem ég dreifði um sveitina og hvernig gat þá utanáskriftin verið dregin með hendi bóndakonunnar? Til að komast að því gerðist ég svo djarfur að skoða í bréf einbúans til að vita hvort þar væri nokkuð að finna sem varpað gæti ljósi á þessa tilviljun. Þar sem bréfin til einbúans bárust ætíð með skipinu hafði ég talið að þau kæmu langt að en þegar ég hafði lokið við að lesa hvað í bréfinu stóð sá ég að það var undirritað af bóndanum á innsta bænum og í eftirskriftinni sagðist hann hafa beðið mig fyrir bréfið þegar ég hefði komið við hjá honum en það voru ósannindi því að ég var handviss um að þetta var eitt af þeim bréfum sem mér voru afhent úr skipinu. Þetta varð mér mikil ráðgáta en þó nefndi ég þetta ekki við bónda. Þess í stað fór ég að veita betur athygli þeim pósti sem ég tók á innsta bænum og leiddi sú rannsókn mig í allan sannleikann um það hvernig í málinu lá. Það var þegar ég gægðist í eitt umslagið sem ég tók hjá bóndahjónunum, og stílað var á systur bóndans sem bjó í öðrum landshluta langt í burtu þaðan, að ég veitti því athygli að í bréfinu var annað umslag sem stílað var á einbúann ásamt stuttum skilaboðum um að póstleggja þetta umslag sem fylgi. Það umslag var svo bréfið sem ég myndi nokkru síðar sækja í skipið og ferðast með yfir skarðið og færa einbúanum. Bóndinn á innsta bænum var sem sagt að láta mig fara með bréf frá sjálfum sér til þess eins að svala forvitni sinni um einbúann handan við skarðið. Hann hefði ekki getað beðið mig fyrir bréfin því hann vissi hve mikil vandræði voru að ferðast þessa leið, fyrir utan hversu slíkar bréfaskriftir hlutu að verka undarlega á mig sem þær gerðu. Því varð bréfið að koma langt að frá ókunnum sendanda.
Eftir að mér varð þetta ljóst fylltist ég gremju í garð bóndans. Þvílík dirfska að láta mig hafa fyrir því að þvælast með þetta auma, tilgangslausa bréf alla þessa leið þegar hann hefði svo auðveldlega getað farið sjálfur. Ég fékk mig samt ekki til þess að láta tilfinningar mínar í ljós við bóndann því ég hafði frétt af veikindum hans sem hann reyndi að fara leynt með. Á hinum bæjunum í sveitinni hafði ég frétt að þessi veikindi hefðu hrjáð hann um árabil og að læknirinn teldi að þau myndu brátt leggja hann í gröfina. Ég vildi ekki vera að elda grátt silfur við dauðvona mann. Síst af öllu þegar mér varð hugsað til þess hve glaður einbúinn varð komu minni. Þá ímyndaði ég mér nefnilega að þetta hlyti allt að vera af góðmennsku gert hjá bóndanum. En ef það var rétt reyndist mér samt sem áður ómögulegt að skilja af hverju hann færi ekki sjálfur og heimsækti þennan félaga sinn fyrst hann var svo fótafær sem raun bar vitni. Ég þreytti mig á því að telja mér trú um að hann kenndi í brjósti um einbúann og væri í rauninni að senda honum félagsskap með þessum bréfaskriftum. En ég varð samt sárlega móðgaður við að horfa uppá bóndann á innsta bænum ljúga vísvitandi í mig hvað eftir annað og þegar gremja mín hafði fengið að dafna nokkra hríð fann ég það upp hjá sjálfum mér að sleppa því einfaldlega, að færa einbúanum þau bréf sem honum bárust. Ég varð þó að koma því þannig fyrir að bóndinn á innsta bænum héldi að ég færi ennþá með bréfin og því fór ég vanalega drjúgan hluta leiðarinnar til einbúans en notaði svo tímann í að liggja einhversstaðar handan við skarðið á grasbala og hvíla mig eða skipuleggja afskipti mín af kvenfólkinu í sveitinni. Ég vildi sem sagt bíða og sjá til hvort þetta fyrirkomulag myndi ekki lognast útaf enda þótti mér það allsendis tilgangslaust. Það var að minnsta kosti sú ástæða sem hégómi minn kaus að nota til að afsaka þessa vanrækslu mína. En ég vissi vel að ástæðan væri í rauninni sú mikla ógn sem mér stóð af þessum undarlegu vélabrögðum.
Ég var einmitt að velta þessu fyrir mér þar sem ég ríghélt mér í taumana og starði blint út í hvíta þokuna meðan ég beið þess að hesturinn færðist hægt yfir skarðið. Ég gat ekkert séð nema rétt glitta í götuna þar sem hófar hestsins héldu sér í jörðina. Ég hefði viljað snúa til baka en þrjóskan í hrossinu leifði ekkert annað en að silast hægt fram á við og dýpra inn í þokuna. Mig hryllti við því að þurfa af einhverjum orsökum að fara af baki og verða jafnvel viðskila við hestinn þar sem ég hafði ekki nokkra hugmynd um hvar við vorum staddir né hvernig okkur miðaði áfram. Ég varð því mjög undrandi þegar mér fannst ég heyra yfirborðið í vatninu rjála við sandinn á bakkanum. Það þýddi að við vorum komnir yfir skarðið að stóra vatninu á heiðinni og að rétt handan við leitið hinum megin við vatnið hvíldi hreysi einbúans og biði eftir mér.
Ég steig af baki og teymdi klárinn með mér eftir bakkanum þar til fúið bátskriflið kom í ljós í þokunni. Ég ætlaði að snúa klárnum við og halda til baka en þá hafði enn ein þvermóðskan hlaupið í hann því hann stóð grafkyrr við landfestarnar eins og hann biði þess að ég færi út í bátinn. Ég vildi bíða og sjá hvort hann gæfi eftir en brátt fór mér að líða illa af því að halda kyrru fyrir þarna í þokunni því ég gat lítið séð í kringum mig en að sama skapi fannst mér ég vera farinn að heyra of vel. Ég brá á það ráð að binda klárinn við landfestarnar en leysa bátinn og ýta á flot. Ég ímyndaði mér að ef ég réri nógu langt út til að hesturinn missti sjónar af mér en snéri svo við og kæmi til baka þá myndi hann sættast og vilja halda heim á leið. En þegar ég hafði róið nógu langt frá bakkanum og var byrjaður að snúa bátnum varð mér skyndilega ljóst að ég hafði algjörlega tapað áttum. Þvílík flónska. Ég reyndi að píra augun út í hvítt þykknið fyrir framan nefið á mér en það var til einskis. Fyrir utan borðstokkinn dofnaði heimurinn og þynntist út í hvítt, eyðlegt tóm. Ég reyndi að róa eins beint og ég gat en það var eins og ég færðist ekki úr stað. Þegar ég hafði reynt þetta dágóða stund án árangurs fann ég hvernig einhverskonar fát kom á mig og ég var byrjaður að snúa bátunum enn einu sinni þegar ég heyrði eitthvert gösl nálgast og sá hvar hesturinn birtist frísandi á sundi út úr þokunni. Ég snéri bátnum í flýti og elti hestinn þar til ég fann að báturinn rakst upp í bakkann. Ég furðaði mig á þessari hegðun skepnunnar og þegar ég ætlaði að grípa í tauminn fór hún undan og ég horfði í örvæntingu á eftir henni hverfa inn í þokuna. Nú voru góð ráð dýr. Mig langaði helst til að leggjast niður og vita hvort hesturinn, sem hafði ávallt verið mér tryggur, myndi ekki vitja mín fyrr eða síðar. En ég sá mig tilneyddan að leita á náðir einbúans og skila af mér öllum bréfunum þó ég vissi að þá myndi upp komast um vanrækslu mína við að heimsækja hann. Og þannig áræddi ég að halda einsamall inn í þokuna.
Þegar ég hafði ráfað upp fyrir leitið sá ég eins og stóran skugga bíða í þokunni. Þetta hlaut að vera íverustaður einbúans en þegar nær dró sá ég að svo myndi ekki vera. Mér varð brugðið og fannst eins og þarna hlyti að hafa orðið einhver mikil breyting frá því ég kom þangað síðast en þegar ég kom enn nær varð mér ljóst að ég hafði leitað of langt til hliðar og ráfað að útihúsunum sem mig minnti að hefðu staðið steinsnar frá bænum. Vindaugað í hlöðunni fylgdist með mér nálgast húsin og þegar ég kom undir fjárhúsvegginn undraðist ég hve hljóðlátt féð hlyti að vera. Þangað hafði ég aldrei komið en mér hafði skilist að þar héldi einbúinn þann búpening sem hann dró fram lífið á. Ég vogaði mér að klifra upp á húsin til að vita hvort ég gæti gægst inn um skjáinn og svalað forvitni minni um það hversu margt fjár einbúinn héldi. Ég hafði aldrei spurt hann að þessu því ég vildi forðast að gefa honum nokkurt færi á að þvæla við mig meira en nauðsyn væri. Þegar ég skyggndist inn um skjáinn sá ég í sjónhendingu glitta í talsverðan fjölda af hvítum rolluhausum en um leið myrkvaðist króin þegar skugginn af mér kom inn í húsin. Ég óttaðist að reita einbúann til reiði með því að ríða húsum hans og ætlaði að fara fram fyrir húsin þegar ég finn hvernig þakið svíkur undir fótum mér með þeim afleiðingum að ég hlunkast niður í húsin og lendi flatur í krónni. Ég bjóst við að féð myndi tryllast við þessa óvæntu heimsókn og setti hendurnar fyrir mig til að það myndi ekki traðka í andlitinu á mér en af einhverjum sökum urðu engin viðbrögð í fjárhúsunum og þegar ég lít betur í kring um mig sé ég tómar, gapandi augntóftir horfa til mín úr öllum áttum. Ég reif mig upp úr risastórri beinaflækjunni sem glóði undir mér af allri birtunni sem kom niður um gatið á þakinu og ég ruddist í átt að dyrunum. Hurðarspjaldið var af hjörunum og lá um dyrnar þverar en í staðinn var grá þokan eins og veggur fyrir dyrunum. Meðan ég klofaðist yfir spjaldið tók ég eftir að það var eins og beinunum hefði verið raðað í einhver mynstur í krónni en ég skildi ekki hvernig á því gæti staðið og hraðaði mér skömmustulegur út í þokuna og hélt rakleiðis í átt að bænum.
Ég kom að bakhlið bæjarhússins en hana hafði ég aldrei áður litið augum og undraðist að hún væri svo mun hrörlegri að sjá en framhliðin. Þetta líktist frekar einhverskonar hrúgu en mannvirki en þó gat ég borið kennsl á gluggann þar sem ég hafði verið vanur að setja bréfin. Þau höfðu fokið úr gluggakistunni og lágu öll með tölu óopnuð á víð og dreif í grárri sinunni fyrir neðan gluggann, innanum einhver eldri bréf sem vindurinn hafði leikið sér að því að velkja um og hræra saman við stráin. Ég læddist fram fyrir bæinn en undraðist að sjá ekki einbúann standa og bíða mín í dyragættinni eins og hans hafði verið vani. Ég gægðist inn og kafaði í þokuna sem virtist vera ennþá þykkari inn undir lágu loftinu. Mér datt fyrst í hug reykur en daunninn var sá sami og ég hafði átt að venjast. Ég traðkaði á maukuðum viðarfjölunum inn á mitt gólfið og svipaðist um eftir formi einbúans í hvítu myrkrinu sem fyllti bæinn. Hann hefði allt eins geta staðið við hlið mér án þess að ég yrði þess var svo ég kallaði og spurði hvort einhver væri heima. Engin viðbrögð urðu við kallinu og ég reyndi að hlusta eftir því hvort hann hrærði sig einhversstaðar inni í bænum en varð einskis var fyrr en blýgrár svipur hans rennur á mig út úr hvítri þokunni og byrjar umsvifalaust að hvísla einhverjum orðum sem ég átti að þekkja.
Ég hörfaði undan honum í átt að dyrunum sem lágu inn í myrkan afkima hússins sem ég hafði aldrei barið augum og þegar það var ljóst að ég myndi líta leyndarmálið hans sá ég svipinn dofna og hverfa í þokuna. Þegar ég var kominn fyrir skakkan dyrakarminn stóð ég lamaður og horfði dapur í bragði á það sem hann hafði viljað fela. Það var ekkert annað en skítugt fleti þar sem uppskorpnaður nárinn af honum hnipraði sig saman með andlitið falið í höndum sér. Mér fannst ég aldrei hafa séð neinn liggja svona kyrrt og það var einhver hræðilegur tónn sem hékk ennþá storknaður í loftinu en ég gat ekki áttað mig á honum og mér fannst eins og ég yrði að sjá framan í hann. En þegar ég beygði mig nær andlitinu sá ég að í holdið hafði vaxið eitthvert skelfilegt, ómennskt svipbrigði og um leið var eins og losnaði um skerandi tóninn sem setið hafði fastur í loftinu og vindhviða þyti af stað inni í húsinu því einhver duftsalli rauk upp af fletinu og feyktist framan í mig. Ég flýtti mér skelfingu lostinn út úr bænum og hljóp blint út í þokuna bryðjandi rammt rykið. En þegar ég var kominn spölkorn frá bænum heyrði ég frekjulegt, dynjandi traðkið koma á eftir mér og fann hvernig ruðst var utan í mig svo ég fell í jörðina.
Þegar ég loksins gat opnað augun sá ég hvar skepnan snéri við og æddi blásandi til húsbónda síns. Við þustum burt af þessum álagabletti þar til dýrið steypti sér út í fimbulkalt vatnið. Hendur mínar krepptust utan um tauminn svo skein í beinaberar kjúkurnar og ég fylgdist óttasleginn með hvernig þær blánuðu og æðarnar sem birtust í handleggjunum sortnuðu af helköldum dauðanum sem smaug um þær. Fyrir framan mig sá ég hvernig veröldin birtist út úr hvítri þokunni, líkt og hún væri jafnóðum ofin úr loftinu einu saman, og ég skildi að það var aðeins vegna þess að ég var þarna að þvælast sem landslagið hafði fyrir því að vakna og rifja upp formið sem það hafði einhver tíma haft.
Ég kom blautur og úrvinda af þreytu niður úr skarðinu og heim á innsta bæinn í dalnum. Strax og ég kom var mér tjáð að veikindi bóndans hefðu versnað til mikilla muna og lagt hann í rúmið og því lágum við saman í fleti uppi á lofti um nóttina. Ég veltist um í svitakófi á meðan hann hríðskalf af kulda svo tennurnar í honum glömruðu. Samt var hann óvenju forvitinn um það hvers ég hefði orðið var í ferð minni og það var eitthvað í skjótu tilkasti augna hans sem sagði mér að nú lægi mikið við. Ég sagði honum að allt hefði verið eins og í fyrri heimsóknum mínum og ekkert hefði brugðið út af vananum fyrir utan eitt smáatriði sem ég hefði mikið hugsað um á leiðinni til baka en ekki fengið neinn botn í: Einbúinn hefði nefnilega beðið mig fyrir örlítil skilaboð til hans sem mér væri ekki ljóst hvað kynnu að merkja. Það lifnaði yfir bóndanum við að heyra þetta og ég reyndi að láta það hljóma sannfærandi þegar ég sagði honum að skilaboðin hefðu einfaldlega verið þannig að það væri ekkert að óttast. Hann var hugsi svolitla stund áður en hann snéri sér upp að þilinu. Mér fannst eins og mér bæri að segja eitthvað meira en ég vissi eiginlega ekki hvað það mætti vera og ég ákvað að leyfa honum að sofna í friði.
Um morguninn hafði hann kvatt.

Rúnar Snær

Wednesday, May 07, 2003

Smyglið

Í útvarpsfréttum í gær var sagt frá því að tveir menn hefðu verið stöðvaðir í tollinum vegna grunsamlega háttsitjandi derhúfna. Við nánari skoðun kom í ljós að undir húfunum leyndist sítt-í-hnakka. Við líkamsleit á mönnunum kom síðarí ljós að þeir voru með samtals tvöhundruð músstös innanklæða, sem talið er að þeir hafi ætlað að koma í umferð hér á landi. Eftir yfirheyrslur þótti þó sannað að sítt-í-hnakkað hafi verið ætlað til einkaneyslu.
Í þessu samhengi var rifjað upp mál frá því fyrr í vetur þegar tveir þekktir tískuglæpamenn frá áttunda áratugnum komu með sítt þungarokkhár til landsins. Fylgst var með ferðum þeirra í borginni og sá lögregla þá hverfa inn í blokkaríbúð í Breiðholtinu. Ákveðið var að ráðast til inngöngu í íbúðina en þeir gera tilraun til flótta og ná að komast í rauða volvobifreið sem þeir höfðu til umráða en lið lögreglunnar veiti þeim eftirför. Hófst nú eltingarleikur sem endaði uppi við rauðavatn. Þar yfirgáfu mennirnir volvobifreið sína og hugðust komast hlaupandi undan lagana vörðum. Þeir voru þó fljótt gómaðir og þegar þeir voru sviptir derhúfum sínum kom í ljós að mennirnir höfðu smyglað sítt-í-hnakka til landsins í formi þungarokkshárs sem þeir höfðu svo klippt til í bæli sínu í Breiðholtinu. Við nánari eftirgrennslan lögreglunnar í íbúð mannanna fannst hið burtklippta hár ásamt tækjum til músstasgerðar.
Bæði þessi mál hafa vakið umtal í þjóðfélaginu og hafa jafnvel vakið raddir um lögleiðingu sítt-í-hnakka. Helstu fylgismenn slíkra skoðana nefna að sítt-í-hnakka sé vægt efni þar sem það megi fela undir húfum eða niðri í hálsmáli og sé í grundvallaratriðum ekki ósvipað öðrum greiðslum. Þeir sem andvígir eru lögleiðingunni nefna að sítt-í-hnakka kalli síðar meir á músstas sem hvergi geti dulist enda sé þar um miklu harðara efni að ræða.